Óhapp við kjarnaofn í Halden í Noregi

Greint hefur verið frá því að óhapp hafi átt sér stað í gær (24.10.2016) við meðferð eldsneytis við kjarnaofn sem notaður er við rannsóknir hjá norsku Orkurannsóknastofnuninni (Institutt for energiteknikk, IFE) í Halden í Noregi. Örlítið af geislavirku joði (I-131 og I-132) barst um bygginguna sem hýsir lítinn rannsóknaofn sem þar er starfræktur og hluti þess losnaði til umhverfisins. Geislavörnum ríkisins barst tilkynning um þetta eftir hefðbundnum samskiptaleiðum milli Norrænu geislavarnastofnananna.

Um er að ræða mjög lítið magn geislavirkra efna, sem ekki hefur skaðleg áhrif á starfsfólk rannsóknaofnsins eða umhverfi hans.

Ekki er talið líklegt að geislavirkra efna verði vart utan næsta nágrennis rannsóknaofnsins vegna þessa. Geislavarnir ríkisins munu fylgjast með mælingum á geislavirkni umhverfis IFE í framhaldinu.

Um starfrækslu kjarnaofna gilda strangar öryggiskröfur. M.a. er þess krafist að tilkynnt sé um öll atvik sem valda aukinni geislavirkni, jafnvel þótt hún teljist hverfandi.

Geislavarnir ríkisins munu fylgjast áfram með gangi mála í Halden og veita nánari upplýsingar ef þörf krefur.

Fréttatilkynning frá Institutt for energiteknikk

Fréttatilkynning frá Norsku geislavörnunum

Uppfært 25.10.2016 kl. 15:30

Skv. tilkynningu frá Norsku geislavörnunum er það mat stofnunarinnar að ástandið í Halden sé fyllilega tryggt. Hafi stofnunin gert óháðar mælingar sem staðfesti að losun geislavirkra efna til umhverfisins hafi verið hverfandi. Þannig hafi engin óvenjuleg geislun mælst á staðnum eða umhverfis hann.

Norska geislavarnastofnunin hefur metið atvikið til þreps 0 á INES kvarða, þ.e. neðan kvarða.

Geislunarslys eru metin með svokölluðum INES kvarða (the International Nuclear and Radiological Event Scale). Kvarðanum er ætlað að hjálpa til við að skýra fyrir almenningi hversu alvarleg geislunar- og kjarnorkuslys kunna að vera og að auðvelda samanburð. Kvarðanum er skipt í 7 stig.  Þrjú lægstu eru atvik, þau fjögur efstu teljast slys.  Atburðir sem skipta engu máli vegna öryggis teljast frávik (deviation) og lenda í þrepi 0, neðan kvarða.  Stigin eru:

  1. Smávægilegt atvik (Anomaly)
  2. Atvik (Incident)
  3. Alvarlegt atvik (Serious incident)
  4. Slys með staðbundnar afleiðingar (Accident with local consequences)
  5. Slys sem hefur afleiðingar víða (Accident with wider consequences)
  6. Alvarlegt slys (Serious accident)
  7. Stórslys (Major accident)
2016-10-25T15:57:25+00:00 25.10.2016|0 Comments