Páskar eru nú óvenju seint á árinu og þess vegna er sól hærra á lofti en oft áður um páska. Sólargeislarnir eru sterkari og því ástæða til að minna á notkun sólgleraugna og sólarvarnar.

Þeir sem fara á skíði eða í langar gönguferðir um páskana þurfa að hafa í huga að mikil sólargeislun getur valdið óþarfa sólbruna og jafnvel snjóblindu hjá þeim sem ekki gæta sín. Sólargeislunin endurkastast mjög vel af snjó og geislun á andlit og augu getur nærri tvöfaldast vegna þess. Vegna endurkastsins verður andlitið fyrir sólargeislum þótt gengið sé með bakið í sólina. Ský stöðva ekki útfjólubláa geislun frá sólinni (sem veldur sólbruna og sólblindu) og þess vegna getur andlitið orðið fyrir mikilli geislun þótt skýjað sé. Til fjalla eru sólargeislarnir sterkari en niður við sjó vegna þess að andrúmloftið deyfir þá minna.

Margir brenna í sólinni árlega.  Sólbruni er skemmd á húðinni og endurteknir sólbrunar geta leitt til húðkrabbameins. Því er full ástæða til aðgæslu og varúðar. Sjálfsagt er að njóta sólargeislanna en nauðsynlegt er að nota sólarvörn rausnarlega, skýla sér með klæðnaði og forðast sólbruna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar börn eiga í hlut.

Upplýsingar um styrk útfjólublárrar geislunar (UV – stuðull) á Íslandi má finna á vef Geislavarna: http://uv.gr.is/

Sé UV-stuðullinn 3 eða hærri þá er þörf á sólarvörn. Sé stuðullinn 2 eða hærri þá getur verið þörf á sólarvörn ef verið er lengi út í sólinni. Miðað við árstíma má gera ráð fyrir að UV-stuðullinn geti orðið 2 – 3 um páskana í Reykjavík og jafnvel heldur hærri á fjöllum. Til samanburðar má geta þess að UV-stuðullinn á Spáni um páskana gæti orðið 8 – 10. Við slíkar aðstæður þarf að nota öfluga sólarvörn og forðast sólböð þegar sólin er hæst á lofti.

Fróðleik um útfjólubláa geislun og húðkrabbamein má meðal annars finna á

https://gr.is/sol-uv-utfjolubla-geislun-2/

http://www.hudlaeknastodin.is/hls/page/blog-cancer/

http://www.krabbameinsskra.is/

Spá fyrir UV-stuðul dagsins

Spá fyrir UV-stuðul dagsins
Mynd: Finnska veðurstofan