Pólon-210 (Po-210) er geislavirkt efni sem finnst í náttúrunni. Það gefur frá sér alfageisla, en þeir eru mjög skammdrægir. Þeir komast einungis 2-3 cm í lofti og þeir komast ekki í gegnum hlífðarlag húðarinnar (þeir komast t.d. ekki heldur í gegnum pappírsörk). Þeir hafa hins vegar mun meiri áhrif en aðrar tegundir geislunar á þeirri stuttu vegalengd sem þeir komast. Alfageislandi efni eru því hættulaus á meðan þau eru utan líkama, en í eðli sínu varasamari en önnur geislavirk efni ef þau komast inn í hann. Geislun í litlu magni eykur t.d. áhættu á að fá krabbamein síðar á ævinni. Sé geislunin mjög mikil, þá veldur mikill frumudauði líffræðilegum áhrifum sem geta reynst banvæn. Séu reykingar notaðar til samanburðar, þá má segja að reykingar í smáum stíl auki líkur á krabbameini, en innöndun á miklu magni af reyk valdi hreinlega bráðri köfnun. Hafi geislun frá pólon-210 orðið Alexander Litvinenko að bana þá hefur þurft til mjög mikið magn af efninu (miðað við magn efnisins í náttúrunni, sjá neðar). Vegna skammdrægni alfageislanna, þá hefði þessi skammtur samt ekki verið greinanlegur utan líkama með venjulegum geislamæli. Efnið hefði helst verið greinanlegt í líkamsvessum frá honum og samkvæmt fréttum á föstudaginn, þá fannst efnið fyrst í þvagsýni Litvinenkos. Þeim sem umgengust hann ætti því ekki að vera mikil hætta búin.

Einsdæmi er að geislavirkt efni sé misnotað með þessum hætti og Geislavarnir ríkisins munu fylgjast áfram með niðurstöðum þessara rannsókna, á dauða Litvinenkos annars vegar og hins vegar á því hversu mikið efnið dreifðist.

Viðbót við frétt, skrifuð að morgni mánudags 27.11:

Margir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um þetta mál síðan á föstudaginn og þá hafa verið nefnd mörg þau atriði sem voru í frétt Geislavarna að ofan. Það eru samt nokkur atriði sem nefna má til viðbótar og sem ekki hafa komið almennt fram í fjölmiðlum.

Það vekur athygli við þetta mál að það er alls ekki á allra færi að nálgast banvæna skammta af þessu efni (á þetta hefur verið minnst í fréttum), það er helst á sérhæfðum kjarnorkurannsóknastöðvum.  Þótt efnið sé að finna í náttúrunni, þá er styrkur þess þar sáralítill.  Framleiðsla stærri skammta er helst í miðstöðvum með kjarnakljúfa eða agnahraðla.  Nifteindum er þá skotið á kjarntegundina bismút-209 (Bi-209) sem er ógeislavirk.  Við að fá nifteindina inn í kjarna sinn breytist efnið í geislavirka efnið bismút-210, sem breytist síðan vegna geislavirkni (helmingunartími þess er 5 dagar) í pólon-210.  Pólon-210 hefur verið notað í tæki til að losa hleðslurafmagn (t.d. af hljómplötum og ljósmyndafilmum).  En þar er það bundið í keramikagnir og væri ekki nothæft sem eitur til inntöku um meltingarveg.

Það sem er einnig athygisvert er að það þarf mikla sérþekkingu til þess að nota efnið sem morðvopn og að auki sýnir val efnisins töluverða þekkingu.  Margir vita að alfageislandi efni eru varasöm, en sú áhætta er einkum bundin við að fá slík efni í lungu.  Hitt vita færri, að líkamann hafnar þessum efnum að mestu fari þau inn í hann um meltingarveg.  Pólon er undantekning frá þessu, það er tekið upp tiltölulega greiðlega og dreifist vel um líkamann.  Pólon-210 er því í hópi allra hættulegustu geislavirkra efna með tilliti til þess að valda bráðum dauða með inntöku um meltingarveg.

 

Eiginleikar Po-210

  • Hluti af úran-geislaröðinni og finnst í náttúrunni í örlitlu magni (í geislaröð breytist eitt efni í annað vegna geislavirkni).  Aðrar kjarntegundir í þessari röð eru m.a. úran-238 (móðurefnið), radín-226, radon-222 og bismút-210.
  • Eðlisfræðilegur helmingunartími efnisins er 138 dagar (á þeim tíma rýrnar magn þess um helming vegna geislavirkni, eftir aðra 138 daga hefur það sem eftir er rýrnað um helming, þ.e. niður í 1/4 af upphaflegu magni).
  • Magn efnisins í líkama minnkar þó hraðast vegna efnafræðilegrar losunar (t.d. með þvagi og saur).  Það getur verið háð formi efnisins hversu ör þessi losun er, en styrkur þess getur þó minnkað um helming á einum mánuði

 

Frekari heimildir

Ágætis yfirlit má finna í alfræðivefritinu Wikipediu (www.wikipedia.org).  Þar má m.a. lesa um pólon-210 og áhrif þess annars vegar og mál Alexander Litvinenko hins vegar.  Hafa verður hugfast að Wikipedia er með dreifðri ritstjórn og bregst hratt við málum líðandi stundar (eins og þessu).  Vefsíður ritsins taka þá örum breytingum og Geislavarnir geta ekki ábyrgst áreiðanleika þeirra upplýsinga sem þar eru.  Lýsing á áhrifum pólon-210 virðist þó vera nokkuð rétt, nema hvað banvæn bráð áhrif eru reiknuð út frá áhættustuðli sem skilgreindur er til að meta síðbúnar sjúkdómslíkur (aðallega af völdum krabbameins eftir mörg ár).  Réttara er að nota áhrifastuðul sem miðast við bráð áhrif.  Niðurstöður eru þó svipaðar, magnið sem þarf til að fá fram banvæn áhrif er sáralítið miðað við önnur geislavirk efni og miðað við önnur eiturefni (magnið væri vart sýnilegt berum augum).

Hér að neðan eru einnig tilvísanir í annað efni, þar á meðal fréttir þar sem vísað er til áhrifa pólons-210.

 

Sigurður Emil Pálsson

 

Grein í Wikipediu um pólon-210 og áhrif þess:
http://en.wikipedia.org/wiki/Polonium

Grein í Wikipediu um ævi og dauða Alexander Litvinenko, með tilvísanir í nýjar greinar í fjölmiðlum:
http://en.wikipedia.org/wiki/Alexander_Litvinenko

Nýleg frétt BBC
http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/6186666.stm

BBC: What is polonium-210?
http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/6181688.stm

Frétt BBC frá því á föstudag um rannsókn á dauða Alexander Litvinenko http://news.bbc.co.uk/2/hi/uk_news/6180682.stm

The Times: 'This wasn't cooked up by amateurs in a bathtub'
http://www.timesonline.co.uk/article/0,,2-2470776,00.html

Fræðsluefni Geislavarna um líffræðileg áhrif geislunar: https://www.gr.is/fraedsluefni/geislavirkni/nr/24

Heimasíða Health Protection Agency í Bretlandi
http://www.hpa.org.uk/

Yfirlýsing Health Protection Agency um rannsókn á dauða Alexander Litvinenko http://www.hpa.org.uk/hpa/news/articles/press_releases/2006/241106_litvinenko.htm