Radon

Radon, Rn, er heiti frumefnisins með sætistöluna 86, en hér er eingöngu átt við kjarntegundina (samsætuna) Rn-222.

Radon er geislavirk eðallofttegund sem verður náttúrulega til í umhverfinu (sjá einnig: náttúruleg geislun) viðhrörnun úrans. Lítill hluti geislaálags Íslendinga kemur til vegna innöndunar radons. Víða erlendis, sér í lagi á Skandinavíuskaganum veldur radon stærsta einstaka þættinum í heildargeislaálagi almennings (aðrir þættir eru t.d. geimgeislun og læknisfræðileg notkun geislunar).

Þekkt er að innöndun radons getur leitt til krabbameins (reyndar eru það dóttirefni radons sem setjast að í lungum og valda krabbameinum). Sambandið milli radons og lungnakrabba er sérstaklega skýrt meðal reykingafólks.

Styrkur radons á hverjum stað fer eftir ýmsum þáttum. Úranið sem radon verður til úr kemur náttúrulega fyrir í berggrunninum, sérstaklega graníti og því er radon helst að finna þar sem bergrgunnurinn er súr. Þar sem radon er eðallofttegund, getur það auðveldlega smogið í gegnum berg og húsgrunna og það getur safnast upp í kjöllurum og jarðhæðum húsa ef loftræsting er ekki góð. Á Íslandi er berggrunnurinn úr basalti, sem er rýrt af úrani, og því er radonstyrkur hér með lægsta móti.

Samkvæmt rannsókn sem Geislavarnir ríkisins stóðu fyrir á árunum 2012 – 2013 er meðaltalsstyrkur radons á jarðhæð í húsnæði á Íslandi um 13 Bq/m3.

Radon veldur stærsta einstaka þættinum af náttúrulegum uppruna í geislaálagi almennings víðast hvar í heiminum en hér á Íslandi veldur radon um 0,2 mSv á ári. Þetta gildi er mun lægra en annarstaðar í Evrópu og langt innan marka við mat á hugsanlegri heilsufarsáhættu. (Sjá einnig: Skýrsla um mælingar á radoni á Íslandi)