Nýlokið er í Kaupmannahöfn alþjóðlegri ráðstefnu um útfjólubláa (UV) geislun og húðkrabbamein. Ráðstefnan var haldin í samvinnu krabbameinsfélaga í Danmörku og Ástralíu og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO.

Á vefsíðu ráðstefnunnar segir að skilaboð hennar um ljósabekki hafi verið skýr: Ljósabekkir eru skaðlegir og ekki er mælt með þeim til að afla D-vítamíns. Vegna hinnar sterku UV-geislunar í ljósabekkjum hefur alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO nú þegar mælt gegn notkun þeirra fyrir fólk undir 35 ára aldri. Mörg lönd hafa bannað notkun barna undir 18 ára aldri og Brasilía hefur bannað ljósabekki með öllu.

Meðal skilaboða um UV-geislun segir að aldrei sé of seint að verjast of mikilli geislun frá sól. Sólbrunar og mikil UV-geislun, bæði í æsku og á fullorðinsárum auki hættu á húðkrabbameinum. Þetta gerir sólavarnir nauðsynlegar fyrir fólk á öllum aldri, þar á meðal að nota sólaráburð og að vera í skugga.

Á ráðstefnunni var lögð áhersla á að ríkisstjórnir settu varnir gegn húðkrabbameinum í forgang. Fyrirbyggjandi aðgerðir hafi sýnt sig að skila árangri og spara kostnað vegna greiningar og meðferðar.

Þátttakendur í ráðstefnunni voru frá mörgum löndum, m.a. sóttu hana leiðandi vísindamenn í rannsóknum á UV-geislun og fulltrúar alþjóðastofnana. Á ráðstefnunni birtu norrænar geislavarnastofnanir, þar á meðal Geislavarnir ríkisins kynningu á norrænu samstarfi um veggspjöld og ráðleggingar um ljósabekkjanotkun.

 

Sjá nánar vefsíðu ráðstefnunnar:

Sjá hlekk á ráðstefnusíðu