Norræna Geislavarnafélagið (NSFS) er liður í því góða norræna samstarfi sem Geislavarnir ríkisins eiga aðild að. Ráðstefnur þess hafa verið haldnar á þriggja ára fresti og skiptast Norðurlöndin fimm á að hýsa þær. NSFS ráðstefna var síðast haldin 2008 í Álasundi í Noregi, en á Íslandi var slík ráðstefna síðast haldin árið 1996. Hér eftir verða þær haldnar á fjögurra ára fresti.

Ráðstefnuna í ár sækja meðal annarra lykilfulltrúar frá nokkrum helstu alþjóðlegu stofnunum á sviði geislavarna, til dæmis Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA), Geislavarnasviði Evrópusambandsins (EU), Umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna (EPA), Alþjóðlega Geislavarnafélaginu (IRPA), og Alþjóða geislavarnaráðinu (ICRP).

Á heimasíðu ráðstefnunnar má finna dagskrá hennar. Dagskráin er fjölbreytt og má sem dæmi nefna að einn fundur ráðstefnunnar verður tileinkaður upptöku nýs öryggisstaðals (EU-BSS), þriðjudagsmorguninn verður tileinkaður læknisfræðilegri notkun geislunar og áherslan á þriðjudagssíðdegi er á viðbúnað gegn geislavá. Ráðstefnan er haldin á ensku.

Áhugasömum gefst enn tækifæri til að skrá sig á meðan húsrúm leyfir. Ákveðið hefur verið að bjóða upp á eins dags skráningu á verulega lækkuðu verði: 8000 kr. Nánari upplýsingar fást með því að senda póst á nsfs@gr.is.

ÓH.