Dagana 17.-18. september sl. var í Vínarborg haldin fimmta ráðstefnan með nafninu “Conference on Falicitating the Entry Into Force of the Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty (CTBT)”. Afdráttarlaus áskorun til þeirra ríkja sem enn hafa ekki undirritað eða fullgilt sáttmálann var samþykkt og má nálgast hana í lokaskýrslu ráðstefnunnar.

Til þessa hafa 177 ríki undirritað sáttmálann og 140 fullgilt hann.

Af þeim 44 ríkjum sem hafa yfir kjarnorku að ráða og staðfesta þurfa sáttmálann svo hann öðlist gildi hafa nú 34 ríki gert svo. Fulltrúar 7 þeirra 10 ríkja sem uppá vantar sóttu ráðstefnuna: Kína, Kólumbíu, Egyptalands, Indónesíu, Ísraels, Írans og Pakistans. Norður-Kórea, Indland og Bandaríkin áttu ekki fulltrúa á ráðstefnunni.

Aðildarríkin létu í ljós áhyggjur yfir því að 11 árum eftir að sáttmálinn var lagður fram til undirritunar hefur hann enn ekki öðlast gildi. Frá því síðasta ráðstefna sama efnis var haldin, árið 2005, hefur þróunin þó orðið sú að gildistaka sáttmálans þykir enn brýnni en fyrr, en á tímabilinu hefur m.a. verið framkvæmd kjarnorkusprenging í tilraunaskyni. Var skorað á öll ríki að undirrita og staðfesta sáttmálann án frekari tafa.

Markmið ráðstefnunnar var að skilgreina leiðir til að stuðla að gildistöku sáttmálans og eru þær tíundaðar í 11 liðum í lokaskýrslu ráðstefnunnar. Frekari upplýsingar má nálgast á vefsíðu CTBTO (Preparatory Commission for the Nuclear-Test-Ban Treaty Organisation).

Ísland undirritaði Alþjóðasáttmálann um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn 24. september 1996 og fullgilti Alþingi hann 26. júní árið 2000.