Geislavarnir ríkisins hafa gefið út skýrslu um mælingar á rafsegulsviði við spennistöðvar í þéttbýli. Sumir hafa áhyggjur af nábýli við spennistöðvar og sumarið 2020 gerðu Geislavarnir tímabundið átak í því að fjölga enn mælingum við spennistöðvar til að auka heildaryfirsýn. Tilgangur mælinganna var að kanna styrk rafsegulsviðs upp við og í nágrenni spennistöðva og bera niðurstöður saman við viðmiðunarmörk Alþjóða geislavarnaráðsins fyrir ójónandi geislun (ICNIRP) fyrir almenning. Með þessu móti mætti leiða í ljós hvort ætla megi að rafsegulgeislun frá spennistöðvum í þéttbýli gæti við einhverjar aðstæður verið skaðlegar fólki.

Í skýrslunni er lýst aðferð, mæibúnaði og mæligildum sem fengust. Niðurstöður mælinganna benda til þess að spennistöðvar valdi engri eða mjög lítilli hækkun á styrk segulsviðs í íbúðarhúsnæði, sé það staðsett í að lágmarki nokkurra metra fjarlægð frá spennistöð, enda lækkar styrkur rafsegulsviðsins hratt með fjarlægð.

Með hliðsjón af þeim niðurstöðum sem fram koma í skýrslunni telja Geislavarnir ríkisins að ekki sé tilefni til umfangsmeiri mælinga á styrk segulsviðs við spennistöðvar á Íslandi.

Mælir við spennistöð

Mælir við spennistöð