waveRafsegulsviðsmælingar í skólum sem gerðar voru á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2014 leiddu í ljós að styrkur sviðanna var mjög lítill og langt innan við alþjóðleg viðmiðunarmörk.

Árið 2014 áttu Geislavarnir ríkisins og tæknideild Kópavogsbæjar samstarf um að mæla styrk rafsegulsviðs frá þráðlausum netum og farsímum í leikskólum sem og grunnskólum.

Markmið mælinganna var að leggja mat á styrk rafsegulsviðanna, bera saman við alþjóðleg viðmið fyrir svæði sem almenningur hefur aðgang að og meta hvort ástæða væri til frekari mælinga.

Mælingar voru gerðar innandyra og utan við þrjá leikskóla og þrjá grunnskóla.  Staðir fyrir mælingar voru ákveðnir fyrirfram og valdir voru staðir þar sem gera mátti ráð fyrir að börn héldu sig.

Niðurstöðurnar voru bornar saman við viðmiðunarmörk frá Alþjóðaráði um ójónandi geislun, ICNIRP.

Í öllum tilvikum sýndu mæliniðurstöður innan við 30% af hámarki miðað við ráðleggingar ICNIRP, og langflest mæligildi voru aðeins um 1-2% af hámarki.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við niðurstöður mælinga sem gerðar hafa verið í skólum og víðar annarsstaðar á Norðurlöndunum og gefa ekki tilefni til frekari mælinga eða aðgerða af hálfu Geislavarna ríkisins.

Skýrslu frá sænsku geislavörnunum, Strålsäkerhetsmyndigheten, má nálgast hér og skýrslu frá norsku geislavörnunum, Statens strålevern, má nálgast hér.

Á síðunni Farsímar, sendimöstur, rafsegulsvið má lesa meira um þetta viðfangsefni, meðal annars norræna yfirlýsingu frá 2013. Þar er einnig að finna minnisblað um mælingarnar í Kópavogi.