Geislavarnir ríkisins taka þátt í Norrænu verkefni þar sem bornar eru saman mismunandi aðferðir á sjúkrahúsum á Norðurlöndum við að meta geislaskammta sem sjúklingar fá í skjaldkirtilsmeðferð með geislavirkum efnum. Fyrstu niðurstöður úr þessum samanburði verða kynntar á ráðstefnu í Kóreu í október n.k. (Rannsóknin kallast á ensku: Survey of methods for radioiodine therapy of hyperthyrodism in the Nordic countries, fyrsti höfundur Helene Jönsson).

Samkvæmt áttunda lið fimmtu greinar laga nr. 44/2002 skulu Geislavarnir ríkisins annast rannsóknir á sviði geislavarna. Meðal mikilvægustu rannsókna sem stofnunin stundar eru rannsóknir á geislaálagi sjúklinga. Stofnunni er sérstaklega mikilvægt að stunda slíkar rannsóknir vegna þess að í reglugerðum er þess krafist að Geislavarnir ríksins gefi út leiðbeiningar um viðmiðunarmörk við helstu rannsóknir sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum (sbr. grein 72 í reglugerð 640).

Stofnunin hefur lengi safnað upplýsingum um geislaálag í myndgreiningu röntgentækja og jafnframt tekið þátt í samanburði við önnur Norðurlönd á geislasálagi sjúklinga við ýmsar tegundir röntgerannsókna en stofnunin hefur ekki áður tekið þátt í slíkum rannsóknum þar sem geislavirk efni ('ísótópar') valda geislaálaginu.