Geislavarnir ríkisins hafa tekið virkan þátt í rannsóknasamstarfi NKS, í fjölmörg ár og þannig styrkt verulega hæfni stofnunarinnar á þessu sviði. Áhugasamir geta slegið innleitarorðið „nks“ inn í leitarreit á fréttasíðu vefs Geislavarna og fundið fjölmargar tilvísanir. Auk fjárhagslegs gildis styrkjanna, þá hefur þetta samstarf orðið til að efla tengsl við ýmsa fremstu vísindamenn Norðurlanda á starfssviði stofnunarinnar.

Verkefnin sem Geislavarnir eiga aðild að og hlutu styrki í ár eru:

NordEx12 – Nordic Exercises 2012

Geislavarnir ríkisins áttu frumkvæði að þessu verkefni og er það undir stjórn Sigurðar Emils Pálssonar, viðbúnaðarstjóra. Það snýst um samnorrænar æfingar um viðbúnað við geislavá, en í því taka einnig þátt aðrar geislavarnastofnanir á Norðurlöndum. Markmið starfsins er ekki einungis að halda sameiginlega æfingu, heldur einnig að skipuleggja þátttöku annarra Norðulanda í æfingum sem hvert þeirra heldur og leggja sameiginlegt mat slíkra æfinga. Með þessum hætti geta hin Norðurlöndin nýtt sér mun betur æfingar sem hvert og eitt þeirra skipuleggur í eigin þágu. National Nuclear Security Administration í Bandaríkjunum hefur boðist til að taka virkan þátt í þessari vinnu, en sú stofnun býr yfir hvað mestri reynslu og tækni vegna viðbúnaðar við geislavá á heimsvísu.

GammaWorkshops – Nordic workshops for users of gamma spectrometry.

Geislavarnir áttu einnig frumkvæði að þessu verkefni og sjá um skipulagningu þess og umsjón.  Verkefnið snýst um að efla þekkingu og hæfni til greiningar á geislavirkum efnum. Við og við hafa verið haldnar ráðstefnur (m.a. á Norðurlöndum) þar sem haldin hafa verið erindi um vandamál og lausnir á þessu sviði.  Það hefur þó reynst flestum notendum skammgóður vermir við að leysa eigin vandamál.  Í þessu verkefni verða skipulagðar vinnustofur (workshops), væntanlega fjórar í einum klasa (á sama stað), þar sem notendur geta komið með eigin tölvur og forrit og fengið handleiðslu við að glíma við þau vandamál sem hafa reynst flestum erfiðust.  Undirbúningsfundur vegna vinnustofanna verður haldinn hérlendis í mars.

ORPEX – Orphan sources and fresh fallout: Virtual exercise in mobile measurement

Á síðari árum hafa orðið miklar framfarir í fjarskimunartækni til að finna og þekkja geislavirk efni við leit úr flugvélum og bílum.  Þannig má finna, þekkja og jafnvel meta magn geislavirks efni þótt keyrt sé framhjá því í töluverðri fjarlægð eða flogið yfir það. Geislavarnir tóku öflugan búnað af þessari gerð í notkun á síðasta ári. Í þessu verkefni er þátttakendum boðið upp á þjálfun í að túlka niðurstöður slíkra mælinga. Geislavarnir hafa áður tekið þátt í svipuðu verkefni og leiddi sú vinna m.a. til birtingar greinar í ritrýndu vísindariti.

RADPAST – Natural radionuclides from 238U and 232Th decay series in rural areas of the Nordic countries and dose assessments.

Geislavarnastofnanir hafa almennt einbeitt sér að mati á manngerðum geislavirkum efnum í náttúrunni og heilsufarslegum áhrifum þeirra. Á síðari árum hefur þó verið aukin áhersla á mat á náttúrlegum geislavirkum efnum, t.d. vegna þess að ýmiss konar starfsemi getur leitt til uppsöfnunar náttúrulegra geislavirkra efna. RadPast verkefnið fjallar einmitt um mat á geislavirkum efnum úr úran- og þórínröðinni í náttúrunni og landbúnaðarafurðum.  Geislavarnir hafa notið góðrar ráðgjafar sérfræðinga Landbúnaðarháskóla Íslands við sýnatöku hérlendis. Verkefnið hófst á síðasta ári og heldur nú áfram.

PIANOLIB – Phantom-based intercomparison among Nordic whole body counting facilities and the development of a Nordic phantom library website.

Ef geislavirk efni berast inn í fólk má oft meta magn þeirra með því að mæla geislun frá þeim utan líkamans. Það verður þó með einhverjum hætti að tengja saman mældan geislunarstyrk og magn efnisins í líkamanum.  Einfaldasta leiðin til að gera það er að kvarða mæli með eins konar gínu (geislagínu) sem þekkt magn af viðkomandi geislavirku efni hefur verið sett í.  Í fyrri hluta þessa verkefnis, sem hófst á síðasta ári, var geislagína send á milli Norðurlanda til samanburðarmælinga. Einnig var sett á fót vefsíða til að hafa umsjón með útlánum á geislagínum í eign norrænna rannsóknarstofa. Á þessu ári verður mælingum fylgt eftir og unnið úr gögnum.

GammaRate – Safe use of Portable gamma radiation ratemeters for environmental monitoring.

Litlir og einfaldir geislamælar eru notaðir við margs konar mælingar vegna geislavarna.  Það er þó mikilvægt að niðurstaða sé eins nákvæm og þörf krefur og jafnframt að það sé vitað hversu nákvæm hún er. Það er einnig mjög gagnlegt að verkefnið leiðir til aukinnar samvinnu norrænna sérfræðinga á þess sviði.

MareNuc – Operationalisation of risk assessments for marine reactors.

Að auki taka Geislavarnir þátt í verkefninu MareNuc frá síðasta ári sem haldið er áfram.  Hluti af þessu verkefni var fundur sem haldin var á síðasta ári hér á landi, sjá nánar frétt GR frá 23.9.2010. Á fundinum var fjallað um kjarnorkukafbáta og mat á ógnum sem geta stafað frá þeim ef slys ber að höndum og er stefnt að ráðstefnu um sama efni í Danmörku, síðar á þessu ári.

 

Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri, getur veitt nánari upplýsingar um rannsóknaverkefni NKS og þátt Geislavarna ríkisins í þeim.