nkslogoÁ stjórnarfundi Norrænna kjarnöryggisrannsókna (Nordisk kernsikkerhedsforskning, NKS) í síðustu viku var ákveðið að styrkja samtals átján rannsóknaverkefni á árinu 2015, þar af sex sem Geislavarnir ríkisins taka virkan þátt í. Ennfremur var ákveðið að Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna, gegndi áfram stjórnarformennsku NKS til ársloka 2018.

Heildarupphæð styrkja að þessu sinni er 6,8 milljónir danskra króna. Þau verkefni sem Geislavarnir ríkisins taka þátt í eru:

  • EFMARE – Í verkefninu er lagt mat á áhrif mikillar losunar geislavirkra efna í sjó á norðurslóðum. Framhald af verkefni síðasta árs
  • IDEA – Málstofa um útreikninga og mælingar á innri geislun. Framhald af Thyroid og Thyroidsem verkefnum fyrri ára.
  • NUFORNOR –Verkefnið snýst um að auka og bæta þekkingu Norðurlandanna á aðferðum við rannsóknir á geislavirkum efnum. Rannsóknirnar geta m.a. nýst í viðbúnaði og við að finna geislavirk efni sem nota mætti í ólöglegum tilgangi.
  • NORCON – Framhald af verkefni frá síðasta ári sem snýst um að meta dreifingu geislavirkra efna ef til kjarnorkuslyss kæmi á Norðurlöndunum og hvaða aðgerða þyrfti að grípa til í kjölfarið.
  • GAMFAC – Gerðar verða nákvæmar geislamælingar á svæði í sunnanverðu Hvíta-Rússlandi, nærri Tsérnobyl, sem er mjög mengað af geislavirkum efnum. Tengist verkefni um vettvangsmælingar á síðasta ári.
  • NORCOP-COAST – Málstofa um ferðir kjarnorkuknúinna sjófara og flutning á geislavirkum farmi á norðurslóð, með áherslu á viðbúnað, áhættumat og samvinnu.

Sigurður M. Magnússon hefur verið stjórnarformaður NKS frá árinu 2006, en á stjórnarfundinum í síðustu viku var ákveðið að hann gegndi áfram stjórnarformennsku samtakanna til ársloka 2018.

Sjá einnig fréttabréf NKS frá 6. janúar sl. og tilkynningu um veitingu verkefnastyrkja frá 19. janúar sl.