madur-ad-tala-i-simannVísindanefnd Evrópusambandsins um nýgreinda og vaxandi heilbrigðisáhættu (SCENIHR) hefur nýlega birt niðurstöður sínar um hugsanleg áhrif rafsegulsviða á heilsu fólks. Nefndin dregur ályktanir sínar af vísindagreinum sem hún telur skipta máli og birst hafa síðan nefndin gaf út álit um sama efni árið 2009 og m.a. hefur verið vísað til á vef Geislavarna ríkisins.

Í stuttu yfirliti um niðurstöðurnar eru fjögur atriði nefnd:

  1. Nýlegar rannsóknir sýna ekki fram á skaðleg áhrif af rafsegulsviðum sem eru innan marka Evrópulöggjafar (sem miðar við ráðleggingar Alþjóðaráðs um ójónandi geislun, ICNIRP). Í heildina tekið, þá sýna faraldsfræðilegar rannsóknir ekki aukna hættu á krabbameinum í eða við höfuð vegna rafsegulsviða á fjarskiptatíðnum (þar á meðal er svið frá farsímum).
  2. Í fyrra áliti nefndarinnar 2009 var sagt frá hugsanlegum tengslum Alzheimer-sjúkdóms við rafsegulsvið. Nýjar rannsóknir staðfesta ekki þau tengsl.
  3. Faraldsfræðilegar rannsóknir tengja langtímaveru í sviði nálægt háspennulínum við hærri tíðni barnahvítblæðis. Engin skýring hefur fengist á þessum tengslum og þau hafa ekki verið studd með tilraunum. Þetta, ásamt vanköntum á faraldsfræðilegu rannsóknunum veldur því að ekki hefur verið hægt að sýna fram á að sviðið frá háspennulínunum valdi í raun hvítblæðinu.
  4. Sumir telja sig hafa sjúkdómseinkenni sem stafi af rafsegulsviðum. Rannsóknir sýna ítrekað að ekki er orsakasamband á milli slíkra sjúkdómseinkenna og rafsegulsviða.

Yfirlit um niðurstöður nefndarinnar er hér og íslensk þýðing þess er nú á fræðsluvef Geislavarna ríkisins.