Næstkomandi laugardag, þann 8. nóvember, er haldið upp á Röntgendaginn um víða veröld til að heiðra minningu Wilhelms Conrad Röntgen sem uppgötvaði röntgengeislun á þessum degi árið 1895, fyrir 119 árum.  Þessi dagur er einnig sérstakur hátíðisdagur þeirra fagstétta sem koma að notkun röntgengeislunar í læknisfræðinni.  Á þessu ári hefur röntgenmyndgreining verið stunduð á Íslandi í heila öld.  Í apríl árið 1914 opnaði Dr. Gunnlaugur Claessen fyrstu röntgenstofuna á Íslandi, en hún var til húsa að Hverfisgötu 12. Fróðleik um fyrstu ár starfseminnar og Dr. Gunnlaug Claessen má m.a. finna á heimasíðum Rafarnarins (Röntgenstofan 1914-1931) og Geislavarna ríkisins (Geislavarnir á Íslandi, Upphaf og þróun til 1980).

Í tilefni af þessum tímamótum verður haldið opið málþing um fortíð, nútíð og framtíð læknisfræði og myndgreiningar á Íslandi í 100 ár. Það verður haldið í Hringsal Landspítala Hringbraut-Barnaspítala og hefst það kl 13.00 hinn 8. nóvember 2014. Auglýsta dagskrá má finna hér Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.