Geislavarnir ríkisins hafa lögum samkvæmt eftirlit með öllum röntgentækjum á Íslandi og hefur stofnunin því gott yfirlit um útbreiðslu og notkun þeirra.

Langflest röntgentæki eru í notkun innan heilbrigðiskerfisins og þau eru flest hjá tannlæknum eða á fjórða hundrað. Utan heilbrigðiskerfisins má nefna að tugir röntgentækja eru í farangursleit á flugvöllum og hefur þeim fjölgað mikið á seinni árum.

Röntgentæki sem birta myndir á skjám og vinna úr þeim stafrænt hafa nýlega verið tekin í notkun við gæðaeftirlit hjá ýmsum fyrirtækjum. Á Íslandi eru þau þó nú færri en 10.

Nýjasta dæmið er röntgentæki sem tekið var í notkun um síðustu áramót hjá Nýsköpunarmiðstöð á Keldnaholti. Þetta tæki er í raun lítið tölvusneiðmyndatæki (e. computed tomography) ekki ósvipað þeim sem notuð eru í læknisfræðilegri myndgreiningu og gefur þrívíddarmyndir með mikilli upplausn af litlum hlutum, til dæmis rafrásum og getur aðstoðað við leit að margs konar smíðagöllum.

Annað dæmi er frá Marel hf, sem framleiðir röntgentæki til gæðaeftirlits í fisk- og kjötframleiðslu og eru nokkur slík tæki í notkun hjá íslenskum fiskverkendum, auk fjölmargra tækja sem nú eru notuð við gæðaskoðun kjúklingakjöts erlendis. Þessi tæki geta leitað sjálfvirkt að beinum í hráefninu, samanber meðfylgjandi mynd af vefsíðu www.marel.is, þar sem bein eru greind í fiskflaki.

Picture_med_frett_Mareltaeki17042008

Gosdrykkjaframleiðendur hafa flutt inn tæki til gæðaeftirlits með sinni vöru og ein verksmiðja sem pakkar inn matkvælum keypti nýlega tæki til að fylgjast með að engir aðskotahlutir fylgi með í umbúðunum.

Geislun matvæla til gerilsneyðingar þekkist ekki á Íslandi og geislun sem matvæli kunna að verða fyrir vegna umrædds gæðaeftirlits er óveruleg. Geislun sem starfsfólk verður fyrir er einnig hverfandi og er óþarfi fyrir starfsfólk að bera á sér geislamæla. Þetta sannreyna Geislavarnir ríkisins með reglubundnu eftirliti á hverjum stað.

ÞS