Hvað er rýrt úran?

Úran er náttúrulegt frumefni og finnst í jarðvegi og bergi. Eins og það finnst í náttúrunni er það blanda þriggja samsæta:

úran-238 99.28% (helmingunartími = 4,510,000,000 ár)
úran-235 0.72% (helmingunartími = 710,000,000 ár)
úran-234 0.0057% (helmingunartími = 247,000 ár)

Í kjarnorkuiðnaði er blöndu samsætanna breytt til þess að fá aukinn hlut úrans-235, sem hentar betur fyrir flesta kjarnorkuofna (og einnig í kjarnorkuvopn).   Er þá talað um að úranið sé auðgað (enska enriched) því blandan er þá auðugri af úrani-235.  Þetta aukna magn úrans-235 er fengið úr öðrum skammti af úrani, sem verður þá fyrir bragðið rýrari af úrani-235.   Er þá talað um rýrt úran (enska depleted uranium, skammstafað DU)

Dæmigerð samsetning af rýrðu úrani sem notað er í vopn er:

úran-238 99.8%
úran-235 0.2%
úran-234 0.001%

Hafi endurunnið úran (úr kjarnorkuiðnaði) verið notað, þá getur einnig bæst við örlítið magn annarra geislavirkra efna.

Heilsufarsleg áhætta vegna notkunar á rýrðu úrani

Heilsufarslegri áhættu vegna úrans má skipta í tvennt:

  1. Efnafræðileg áhætta
  2. Áhætta vegna geislunar frá efninu

Efnafræðileg áhætta

Efnafræðileg áhætta er sú sama frá öllum samsætum úrans, þær hafa allar sömu efnafræðilega eiginleika.  Rýrt úran hefur því nákvæmlega sömu efnafræðilega eiginleika og náttúrulegt úran.  Mikið magn úrans getur haft skaðleg áhrif á líkamann eins og aðrir þungmálmar, t.d. getur það haft áhrif á starfsemi nýrna.  Töluvert af efninu þarf þó að berast inn í líkamann til þess að slík áhrif komi fram.

Áhætta vegna geislunar

Áhætta vegna geislunar getur verið tvenns konar.  Annars vegar getur verið um ytri geislun að ræða (frá efni utan líkamans), t.d. ef úranklumpur er settur í vasa og er þar í langan tíma.  Hins vegar getur verið um innri geislun að ræða (frá efnum sem berast inn í líkamann), t.d. sem rykagnir ofan í lungu.

Rýrt úran sendir minna af geislun frá sér en náttúrulegt úran, enda er búið að minnka hlut geislavirkari samsæta úrans.