Radon er geislavirk lofttegund sem myndast af völdum úrans í bergi og jarðvegi. Nái styrkur þess að byggjast upp þá getur það aukið líkur á lungnakrabbameini. Þetta getur t.d. gerst í námum eða öðrum rýmum sem eru umlukin bergi eða jarðefnum og eru með lélegri loftræstingu. Líkur á lungnakrabba af völdum radons eru hins vegar mjög háðar öðru krabbameinsvaldandi áreiti sem lungun verða fyrir, sérstaklega reykingum. Ákveðinn styrkur radons í lofti getur þannig aukið enn frekar líkur reykingamanna á að fá lungnakrabba, á meðan líkurnar aukast lítið hjá þeim sem reykja ekki.

Á Íslandi er berg (t.d. basaltið) óvenjusnautt af úrani, en í Skandinavíu er berg almennt ríkt af úrani og þar hefur því verið töluvert rætt um radon og varnir gegn uppsöfnun þess í rýmum þar sem fólk dvelur. Norðurlandaþjóðirnar hafa nú sameinast um ráðleggingar á þessu sviði. Auk ráðlegginganna hefur verið tekin saman greinargerð um forsendur ráðlegginganna og sameiginleg sameiginleg fréttatilkynning sem birt er samtímis í dag á öllum Norðurlöndum.   Í ráðleggingunum er hvatt til þess að sett séu viðmiðunarmörk varðandi styrk radons í nýju íbúðarhúsnæði, þau séu innan við 100 – 200 Bq á rúmmetra, jafnvel innan við 50 Bq.  Jafnframt sé miðað við að styrkur í eldra húsnæði sé innan sambærilegra marka.  Til þessa hefur verið miðað við að aðgerða væri ekki þörf sé styrkur undir 200 Bq á rúmmetra.  Þegar þörf er á að ná styrknum niður, þá skal beita skjalfestum og sannreyndum aðferðum og þá þannig að ábati sé í samræmi við kostnað.   Aðgerðir skulu byggjast á mælitækni rekjanlegri til alþjóðlegra staðla, jafnframt skulu mælingar helst framkvæmdar af faggildum rannsóknastofum.  Styrkur radons í lofti getur verið mjög breytilegur, ákvarðanir þurfa því að byggjast á mælingum sem hafa staðið í langan tíma, a.m.k. 2 mánuði.  Ennfremur er lögð áhersla á nauðsyn fræðslu á þessu sviði.  Sérstöðu Íslands er getið í þessum gögnum.  Á meðan Noregur, Svíþjóð og Finnland eru meðal þeirra landa þar sem styrkur radons er að jafnaði hæstur, þá er því öfugt farið með Ísland.  Geislavörnum ríkisins hefur þótt rétt að taka þátt í norrænu samstarfi á þessu sviði, en með öðrum áherslum vegna ólíkra aðstæðna.  Í stað umfangsmikillar skimunar á íbúðarhúsnæði, sem væri ekki líkleg til að benda á vanda, þá hefur verið valin sú leið að skoða fyrst uppsprettu radonsins,það er, úran í íslensku bergi.  Íslendingar búa að góðum jarðfræðirannsóknum og Geislavarnir ríkisins og Raunvísindastofnun Háskólans stunda nú sameiginlegar rannsóknir á þessu sviði.  Þær eru hluti norræns rannsóknaverkefnis og studdar af norrænum rannsóknasjóði.  Með bættri þekkingu á drefingu úrans í íslenskum berggrunni og jarðvegi fæst undirstaða til að meta hvort einhvers staðar á Íslandi gætu verið slíkar aðstæður að radon í íbúðarhúsnæði fari yfir viðmiðunarmörkin sem kynnt voru í dag.

Nánari upplýsingar um þetta mál veitir Sigurður Emil Pálsson, sep@gr.is