Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur í nítján ár haldið árlega fundi um heilsufar og ójónandi geislun, mest hefur áherslan verið á geislun frá farsímum og háspennulínum sem og útfjólubláa geislun frá sól og ljósabekkjum. Á fundinum á síðasta ári voru reifaðar hugmyndir um að WHO hefði frumkvæði að því að settir yrðu samræmdir alþjóðlegir öryggisstaðlar fyrir ójónandi geislun eins og þegar hefur verið gert vegna jónandi geislunar frá röntgentækjum og geislavirkum efnum. Slíkir staðlar gætu leitt til betri sáttar um reglur og viðmið á þessu sviði, sérstaklega hvað varðar rafsegulsvið og farsíma, aukins trausts og opnari umræðu.

Starfsfólk WHO hefur síðan unnið að undirbúningi málsins á milli funda og var m.a. leitað til Geislavarna ríkisins um ráðgjöf. Einnig hefur verið fundað með hagsmunasamtökum og alþjóðastofnunum sem starfa á þessu sviði.

Á fundinum 4 – 5 júní sl. voru niðurstöður samráðsfunda kynntar og var samþykkt að halda áfram með þessa vinnu. Stofnaður verður vinnuhópur sem skila á skýrslu fyrir ráðgjafafundinn 2015 og er honum m.a. ætlað að meta umfang verkefnisins og hvaða aðilar þurfi að koma að því sem og að áætla kostnað og leggja fram drög að verkáætlun.

Norðurlandaþjóðir hafa með sér mikið samstarf á sviði geislavarna. Í október 2014 verður í fyrsta skipti haldinn norrænn fundur i Stokkhólmi sem tekur til ójónandi geislunar á öllum sviðum, m.a. frá ljósabekkjum og leysum, auk rafsegulsviðs frá farsímum og háspennulínum. Gera má ráð fyrir að þessar hugmyndir verði til umræðu á fundinum.