Segulsvið með 50 Hz tíðni myndast þegar straumur rennur um raftæki og rafmagnsleiðslur á heimilum eða í rafdreifikerfinu. Alþjóðakrabbameinsstofnunin, IARC, flokkaði segulsvið með 50 Hz tíðni sem hugsanlegan orsakavald hvítblæðis í börnum árið 2002. Niðurstöður rannsókna síðan þá hafa ekki leitt til breytinga á þeirri flokkun.

Á vegum Geislavarna ríkisins og Brunamálastofnunar hefur verið mælt segulsvið í rúmlega 130 íbúðum, aðallega í Reykjavík og nálægum sveitarfélögum en einnig í dreifbýli. Niðurstöður hafa verið teknar saman í skýrslu sem er að finna á heimasíðum stofnananna www.gr.is og www.brunamal.is.

Meðaltal segulsviðs í íbúðum í þéttbýli á Íslandi reyndist vera svipað og í Svíþjóð eða um 0,1 µT ( eining fyrir segulsvið er tesla, T ). Dæmigerð gildi mældust helmingi lægri eða um 0,05 µT.

Þétt við rafmagnstæki í notkun getur segulsvið mælst 2 – 3 µT en það er nær alltaf nánast horfið í eins metra fjarlægð frá viðkomandi tæki.

Í rannsókninni fundust 13 íbúðir þar sem segulsvið mældist yfir 0,4 µT. Í flestum tilfellum var aðeins um eitt herbergi að ræða og segulsviðið að meðaltali lægra en 0,3 – 0,4 µT. Aukið segulsvið stafar oftast  af svokölluðum flökkustraumum sem venjulega er hægt að minnka með einföldum aðgerðum.

Niðurstöður benda til að segulsvið á íslenskum heimilum sé svipað og í Svíþjóð. Svíþjóð er höfð til samanburðar vegna þess að frágangur raflagna á Íslandi og í Svíþjóð er sambærilegur.

Með hliðsjón af niðurstöðum rannsóknarinnar telja Geislavarnir ríkisins að ekki séu, að svo stöddu, veigamikil rök fyrir umfangsmeiri rannsóknum á styrk segulsviðs í íbúðarhúsnæði á Íslandi.

Þá telur Brunamálastofnun ekki þörf á að setja ítarlegri reglur um hönnun og setningu raflagna í byggingum hér á landi með það að markmiði að takmarka segulsvið enda þegar að finna í viðmiðunarreglum stofnunarinnar ákvæði þar að lútandi.

Skýrsla um rannsóknina