Uppfært 14. mars 2001


Í byrjun mars var til umfjöllunar í fjölmiðlum skýrsla breskrar nefndar sem komst að þeirri niðurstöðu, að dvöl í sterku segulsviði gæti hugsanlega aukið líkur á hvítblæði hjá börnum.  Skýrslan var þá óbirt, en sagt hafði verið frá skýrslunni í grein í The Sunday Times, 4. mars.


Greinin hefur nú verið birt opinberlega.


Nefndin kemst að eftirfarandi niðurstöðu (í lauslegri þýðingu):Hvorki tilraunir á rannsóknastofum né faraldsfræðilegar rannsóknir á fólki gefa til kynna að rafsegulsvið af mjög lágri tíðni geti orsakað krabbamein.  Það eru þó ákveðnar faraldsfræðilegar vísbendingar sem benda til þess að sé dvalið lengi í sterkara segulsviði af sömu tíðni og netspenna, þá aukist líkur lítillega á hvítblæði í börnum.  Það er í reynd sjaldgæft að almenningur í Bretlandi komist í snertingu við þetta mikinn styrk segulsviðs.  Á meðan engar vísbendingar sjást um krabbameinsvaldandi áhrif í fullorðnum og á meðan tilraunir á dýrum og einstökum frumum hafa ekki leitt til haldgóðrar skýringar, þá eru faraldsfræðilegu vísbendingarnar að svo stöddu ekki nægilegar til þess að draga afgerandi ályktun um að segulsvið orsaki hvítblæði í börnum.  Hins vegar, ef frekar rannsóknir benda ekki til þess að þessi vensl segulsviðs og hvítblæðis séu sprottin af tilviljun eða nú óþekktum uppruna, þá eru möguleikar á að löng dvöl í sterku segulsviði geti aukið líkur á hvítblæði hjá börnum. 


Stjórn bresku geislavarnanna, NRPB, hefur einnig sent frá sér yfirlýsingu um skýrsluna: Response Statement – from the Board of NRPB „Power Frequency Electromagnetic Fields and the Risk of Cancer“.


Þar kemur meðal annars fram á hverju ári fæðist um 700 000 börn í Bretlandi og að um 500 tilfelli af hvítblæði og um 1000 tilfelli af öðrum tegundum krabbameins greinist árlega í börnum undir 15 ára aldri.  Álitið er að um 0,5% bresku þjóðarinnar búi við aukið segulsvið í því magni, sem skýrsluhöfundar telja að geta tengst hvítblæði í börnum.  Miðað við forsendur skýrsluhöfunda, þá er hugsanlegt að 1 tilfelli í Bretlandi á hverjum 2 árum tengist háspennulínum.   NRPB telur að þegar um svo lítil líkindi sé að ræða, þá sé erfitt að útiloka að aðrar skýringingar, sérstaklega þar sem engin tengsl hafa fundist á milli segulsviðs og krabbameins í fullorðnum (þar á meðal hvítblæði og heilaæxla).  Stjórn NRPB er fylgjandi frekari rannsóknum á þessu sviði, en telur jafnframt að erfitt verði að sýna fram á vensl með faraldsfræðilegum aðferðum vegna þess hve áhættan virðist vera lítil.  Að svo stöddu telur NRPB engan vísindalegan grundvöll til að breyta gildandi viðmiðunum varðandi leyfilegan styrk segulsviðs í umhverfi fólks.


Almennt er því álitið að skýrslan veiti í reynd enga nýja vitneskju, heldur endurspegli hún þá óvissu sem hefur ríkt um þessi mál um skeið.  Vensl á milli segulsviðs og krabbameins hafa ýmist þótt engin eða lítil og vísindamenn hafa ekki orðið sammála um skýringu á hvernig segulsvið ætti að geta orsakað krabbamein (skýringu sem prófa mætti með tilraunum).