Slysið í kjarnorkuverinu í Tsjernóbyl í apríl 1986 opnaði augu margra fyrir því að geislamengun í þéttbýli í kjölfar kjarnorkuslyss væri vandi sem takast þyrfi á við. Reynsla manna áður, miðaðist einkum við geislamengun í dreifbýli og gagnaðgerðir þar. Árið eftir slysið var haldin ráðstefna í Danmörku um viðbrögð við geislamengun í þéttbýli (Accidental Urban Contamination) og var þar fjallað um ýmsa þætti sem þarf að huga að við takmörkun áhrifa slíkrar mengunar. Einnig var þar byggt á reynslu sem fengist hafði fyrstu mánuðina eftir slysið. Í maí 2003 var haldin önnur ráðstefna um sama efni í Danmörku, enda þótti mörgum tími til kominn að taka saman reynslu og rannsóknir undanfarinna 16 ára.  Ráðstefnan var haldin á vegum NKS, Norrænna kjarnöryggisrannsókna (www.nks.org).  Ráðstefnuna sóttu ýmsir leiðandi sérfræðingar heims á þessu sviði og þar voru haldin 53 erindi.  Samantektir þeirra ásamt glærum og veggspjöldum má finna á vefsetri NKS:
www.nks.org/nordisk/B-delen/resultater.htm. 

Mörg erindanna þóttu það bitastæð að vísindaritið Journal of Environmental Radioactivity ákvað að helga ráðstefnunni sérhefti og birta þar valdar greinar tengdar ráðstefnunni.  Þetta sérhefti er nú komið út og er aðgengilegt með www.hvar.is.

Í ritinu er Sigurði Emil Pálssyni hjá Geislavörnum ríkisins þakkað sérstaklega fyrir stuðning hans við ráðstefnuna og starf henni tengt (slíkt var einnig gert á ráðstefnunni).  Sigurður Emil hefur undanfarin ár haft yfirumsjón með þeim hluta norræna NKS samstarfsins sem snýr að geislavistfræði og viðbúnaði gegn geislavá (þessa starfs hefur t.d. verið getið í fyrri frétt á vef Geislavarna.