Á fundi forstjóra evrópskra geislavarnastofnana (Heads of European Radiological protection Competent Authorities, HERCA) í Vilníus þann 12. júní sl. var Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna ríkisins endurkjörinn formaður samtaka þeirra til þriggja ára og lýkur formennsku hans í árslok 2017.

Geislavarnastofnanir í Evrópu eiga með sér margþætt samstarf, bæði formlegt og óformlegt, enda eru öryggiskröfur um geislavarnir sambærilegar í ríkjum Evrópu. Innan Evrópusambandsins eru þær samræmdar með sameiginlegri löggjöf og Ísland, Noregur og Sviss hafa  samræmt sína löggjöf í geislavörnum löggjöf Evrópusambandsins.

Til að styrkja og auka samstarfið var ákveðið árið 2007 að stofna Samtök evrópskra geislavarnastofnana – HERCA. Markmið þeirra er að stuðla að sem bestum geislavörnum í öllum löndum Evrópu. Yfir 40 geislavarnastofnanir í meira en 30 ríkjum Evrópu taka nú virkan þátt í starfi samtakanna.

Í samstarfinu er lögð áhersla á sameiginleg viðfangsefni stofnananna og hagnýtar lausnir á þeim. Sérstök áhersla er lögð á samræmda framkvæmd löggjafar um geislavarnir. Á vegum samtakanna starfa nokkrir  vinnuhópar m.a. um geislavarnir við læknisfræðilega notkun geislunar og viðbúnað vegna geisla- og kjarnorkuslysa.

Að sögn Sigurðar hefur samræming á viðbúnaðar- og viðbragðsáætlunum í Evrópu á grundvelli reynslunnar eftir kjarnorkuslysið í Fukushima verið eitt helsta verkefni samtakanna undanfarin ár. Þeirri vinnu hefur miðað vel og hefur náðst samstaða um viðbrögð við kjarnorkuslysi fjarri Evrópu. Nú er unnið að samræmdum viðbrögðum við alvarlegu kjarnorkuslysi í Evrópu og er þess vænst að þeirri vinnu ljúki á næsta ári.  Einnig hefur verið lögð áhersla á geislavarnir við læknisfræðilega notkun geislunar og hefur góður árangur náðst í samvinnu við framleiðendur tölvusneiðmyndatækja en notkun tölvusneiðmyndatækja til sjúkdómsgreininga hefur aukist mjög undanfarin ár og vegur þungt í heildargeislun sem íbúar Evrópu verða fyrir.

Nánari upplýsingar um Samtök evrópskra geislavarnastofnana og starfsemi þeirra má finna á www.herca.org

Frá fundi HERCA í Vilnius 11.-12. júní 2014