Ástæðan fyrir skorti á geislavirkum efnum er sú að efnin hafa almennt verið framleidd í tilraunakjarnakljúfum. Margir slíkir kljúfar voru reistir í upphafi kjarnorkualdar, en þeir eru nú orðnir gamlir og sumum hefur þurft að loka alveg eða tímabundið vegna viðhalds. Fáir slíkir kljúfar hafa verið reistir á síðari árum, enda frumþróun í kjarnorkuiðnaði lokið og öryggisviðmið strangari.

Umrædd efni eru gefin sjúklingum og koma fram á sértökum myndum sem teknar eru af sjúklingum. Þau hafa stuttan helmingunartíma og eyðast fljótt úr líkama þeirra. Af sömu ástæðu er ekki hægt að geyma þessi efni lengi og eru þau flutt inn vikulega á nokkrar myndgreiningardeildir.

Bæði 2008 og 2009 hafa komið upp vikur þar sem ekki var hægt að afgreiða umbeðið magn geislavirkra efna (Mo-99/Tc-99m) . Þetta hefur hinsvegar ekki komið að sök og horfur eru á að á næsta ári verði þetta ekki vandamál.

Áður hefur verið sagt frá því á vef Geislavarna ríkisins að dregið hefði úr notkun geislavirkra efna á sjúkrahúsum, sbr. frétt frá 15. júní 2009. Tölur frá árinu 2008 sýna að stöðugt dregur úr fjölda rannsókna þar sem notuð eru geislavirk efni.  Að einhverju leyti er þetta vegna þess að rannsóknir í segulómtækjum og sneiðmyndatækjum hafa leyst þær af hólmi.

Geislavarnir ríkisins hafa eftirlit  með allri notkun geislavirkra efna á landinu. Stofnunin endurnýjar árlega leyfi til innflutnings á opnum geislalindum (geislavirkum efnum í lausnum) og óskar þá jafnframt eftir upplýsingum um notkun fyrra árs.

 

ÞS