Á næsta ári verður haldinn 6. rýnifundur alþjóðasamnings um öryggi við meðhöndlun notaðs eldsneytis kjarnaofna og geislavirks úrgangs (Joint Convention on the Safety of Spent Fuel Management and on the Safety of Radioactive Waste Management). Þessi samningur er oftast nefndur JC samningurinn, en aðildarríki hans, sem nú eru 76 talsins, skuldbinda sig til þess að uppfylla þær öryggiskröfur sem tilteknar eru í samningnum og gera grein fyrir því hvernig það er gert í skýrslum sem rýndar eru á fundum sem haldnir eru á þriggja ára fresti. Til að gera aðildarríkjum kleyft að leggja mat á stöðu mála í hverju landi er skýrslum þar um skilað 7 mánuðum fyrir hvern rýnifund. Síðan hafa aðildarríkin 4 mánuði til að koma með skriflegar spurningar sem svara á skriflega innan mánaðar. Á rýnifundinum fara sérfræðingar aðildarríkjanna yfir skýrslurnar, spurningar sem þau hafa fengið og svör við þeim. Geislavarnir ríkisins skiluðu skýrslu Íslands til 6. rýnifundarins 23. október sl. Hún var þá jafnframt birt á vef stofnunarinnar og má sjá skýrsluna hér (á ensku).

Þótt notkun geislavirkra efna á Íslandi sé lítil og mjög lítill geislavirkur úrgangur falli til hér á landi er JC samningurinn mjög víðtækur og spannar allt frá hágeislavirkum úrgangi frá kjarnorkuverum til reykskynjara í heimahúsum sem innihalda örlítið af geislavirku efni. Rýnifundirnir gefa Íslandi því tækifæri til að gera grein fyrir meðhöndlun geislavirks úrgangs hér á landi og með þátttöku í þeim fæst innsýn í hvað aðrar þjóðir með sambærilegar aðstæður gera í þeim efnum.

Í september sl. voru liðin 20 ár frá því samningnum var komið á laggirnar og var þess minnst sérstaklega í tengslum við 61. aðalfund IAEA.