Geislavarnir ríkisins hafa lagt fram skýrslu Íslands um kjarnöryggi fyrir 8. rýnifund alþjóðasáttmála um kjarnöryggi (Convention on Nuclear Safety, CNS) sem haldinn verður í höfuðstöðvum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) 23. mars til 3. apríl 2020. Samningurinn tók gildi 24. október 1996 en Ísland varð fullgildur aðili að honum 2. september 2008.

Markmið samningsins er að stuðla að auknu öryggi við notkun kjarnorku um allan heim og draga þannig úr líkum á slysum. Samningurinn leggur einnig áherslu á viðbúnað og viðbrögð við slíkum slysum. Gerðar eru bindandi kröfur til þeirra ríkja sem hann staðfesta og eru haldnir rýnifundir á þriggja ára fresti þar sem fjallað er um hvort framkvæmd samningsins sé eins og best verður á kosið. Á rýnifundum gera aðildarríkin grein fyrir því með hvaða hætti þau uppfylla kröfur samningsins og svara spurningum annarra aðildarríkja þar um. Þau aðildarríki samningsins sem ekki hafa kjarnorkuver eða annan kjarniðnað eiga að gera grein fyrir viðbúnaði sínum vegna kjarnorkuslysa í öðrum löndum, en um leið fela þessar skýrslur í sér lýsingu á m.a. regluverki sem tengist geislavörnum almennt.

Frá gildistöku samningsins hafa verið haldnir reglulegir rýnifundir um hann á þriggja ára fresti, síðast árið 2017 (sjá  skýrslu Íslands fyrir 7. rýnifund CNS), en einnig sérstakir fundir, m.a. vegna slyssins í Fukushima.