Geislaálag almennings og þ.m.t. sjúklinga ræðst af ýmsum þáttum en geislun í læknisfræðilegum tilgangi vegur þar mjög þungt. Því er geislaálagi sjúklinga sérstakur gaumur gefinn og um það fjallað sérstaklega.

Í lok þessa árs eiga allir staðir sem framkvæma fleiri en 1000 myndgreiningarannsóknir á ári að hafa tiltækar upplýsingar um geislaálag, en þá eru liðin þrjú ár frá því að ný reglugerð (1299/2015) tók gildi þar sem segir að meta skuli meðalgeislaálag sjúklinga á þriggja ára fresti.

Á þeim rúmlega tveim árum sem liðin eru frá gildistöku reglugerðarinnar hefur meirihluti þeirra staða sem gera tölvusneiðmyndarannsóknir skilað inn upplýsingum um geislaskammta í algengum rannsóknum og hér má sjá  mat á geislaálagi í tölvusneiðmyndum af höfði og kvið, byggt á innsendum upplýsingum um geislaskammta.

Nýjar upplýsingar um geislaskammta í almennum röntgenrannsóknum vantar enn frá flestum stöðum.

Í júní næstkomandi munu Geislavarnir ríkisins senda upplýsingar um geislaskammta og tíðni myndgreiningarannsókna á Íslandi til UNSCEAR sem safnar slíkum gögnum reglulega og gefur út. Til þess að gögnin frá Íslandi gefi rétta mynd af geislaálagi vegna læknisfræðilegrar myndgreiningar er mikilvægt að upplýsingar um geislaskammta berist frá sem flestum á næstu mánuðum. Starfsmenn Geislavarna ríkisins munu því á næstu dögum hafa samband við alla sem ekki hafa skilað upplýsingum um geislaskammta síðustu þrjú ár.

Stuttar leiðbeiningar um mat á geislaskömmtum og geislaálagi sjúklinga hafa verið birtar á vef stofnunarinnar.

Samkvæmt 5. gr. laga um geislavarnir (44/2002) skulu Geislavarnir ríkisins annast reglubundið mat á geislaálagi sjúklinga af læknisfræðilegri geislun hérlendis og gagnasöfnunin sem er í gangi núna er nauðsynlegur grundvöllur þess mats.