Mestan hluta ársins er sól of lágt á lofti á Íslandi til að hætta sé á að fólk sólbrenni.  Í lok apríl má búast við að styrkur útfjólublárrar geislunar (UV-index) fari í 3 og hækki síðan í 4 – 5 yfir sumarmánuðina en Geislavarnir ríkisins birta daglega tölur um styrk útfjólublárrar geislunar.

Oft eru Íslendingar óviðbúnir þeim árstíma þegar sólin getur brennt þá og varast það ekki. Á vefsíðu Geislavarna ríkisins má fylgjast með því hvernig styrkur útfjólublárrar geislunar fer nú vaxandi með hverjum degi.  Sjá http://uv.gr.is, með því að smella á töluna fæst þriggja mánaða yfirlit.  

Eftir að þeir dagar koma þar sem styrkur útfjólublárrar geislunar verður 3 eða meiri getur fólk sólbrunnið og því rétt að forðast að vera með óvarða húð úti í sólinni í langan tíma.

Í sólskini er útfjólublá geislun sem fellur á húðina ekki nema að helmingi beint frá sólinni en hinn helmingurinn kemur óbeina leið frá himninum.  Þannig að í skugga getur styrkur geislunar verið allt að helmingur þess sem hann er í sól.  Þetta er hærra hlutfall en gildir um venjulegt ljós.

Á litmyndum kemur glöggt fram hve blátt ljós dreifist meira en rautt ljós (þess vegna eru fjöllin blá). Meðfylgjandi myndir voru teknar fyrir nokkrum dögum af Esjunni. Annars vegar er mynd í innrauðu ljósi (i-) og hinsvegar í útfjólubláu (ú-).  Á i-myndinni sjást ský ofan á Esjunni en ekki á ú-myndinni. Þetta er vegna þess að skýin eru það langt í burtu að þau verða jafn blá og himinninn. Eftir stendur þó reykurinn frá Grundartanga sem er nær og sést koma upp handan við Esjuna til vinstri.

Nánari upplýsingar veitir Þorgeir Sigurðsson (ts@gr.is)

Esja í útfjólubláu ljósiEsja í innrauðu ljósi