Í þessari eindæma blíðu er rétt að minna á mikilvægi þess að forðast of mikla sól. Sólbruni veldur húðskemmdum sem geta leitt til húðkrabbameins síðar á ævinni.

Undanfarnar vikur hafa verið sólríkar og Veðurstofan spáir áframhaldandi sólskini um nánast allt land.

Við viljum því minna fólk á að verja sig gegn geislun sólarinnar, annaðhvort með góðum áburði og fatnaði, eða takmarka þann tíma sem fólk ver óvarið í sól. Við minnum sérstaklega á börnin í þessu sambandi. Á síðu Landlæknisembættisins, Verum klár í sólinni, er að finna ýmis ráð sem gott er að rifja upp nú í upphafi sumars.

Á vef Heilsugæslunnar birtist nýlega góður texti eftir Margréti Héðinsdóttur hjúkrunarfræðing um þetta efni.

Daglega eru birtar tölur um áætlaðan styrk útfjólublárrar geislunar á Íslandi á vef Geislavarna á slóðinni uv.gr.is. Spá um UV-stuðla í Evrópu má sjá t.d. á vef Finnsku veðurstofunnar.