nsfs_logo1Nýlega sóttu sex starfsmenn Geislavarna 17. ráðstefnu Norræna geislavarnafélagsins, Nordisk selskap for strålevern (NSFS) í Hróarskeldu. Ráðstefnan stóð yfir í fjóra daga og hana sóttu um 120 manns frá 16 löndum. Yfirskrift ráðstefnunnar var: Geislavarnir: Starfsfólk – Sjúklingar – Almenningur sem lýsir vel því breiða sviði sem geislavarnafólk fæst við í störfum sínum. Meðal annars var fjallað um norræna og alþjóðlega samvinnu; stefnumörkun, lög og reglugerðir; viðbúnað og viðbrögð við geislaslysum; notkun geislunar í læknisfræði og iðnaði; geislavistfræði og náttúrulega geislun.

Starfmenn Geislavarna fluttu fimm erindi og birtu tvö veggspjöld á ráðstefnunni.

Sigurður M. Magnússon flutti opnunarfyrirlestur sem fjallaði um norræna samvinnu í alþjóðlegu samhengi, en samstarf norðurlandanna á sviði geislunar og kjarnorku hófst upp úr síðari heimstyrjöld. Það þróaðist fljótlega í formlegt samstarf sem hefur haldið áfram allar götur síðan. Sameiginlegar norrænar leiðbeiningar hafa verið gefnar út og löndin eiga með sér öflugt samstarf um rannsóknir undir merkjum Nordic Nuclear Safety Research (NKS).

Jónína Guðjónsdóttir flutti fyrirlestur um barnaprógrömm og geislasparandi tækni í tölvusneiðmyndum þar sem fáar rannsóknir eru gerðar. Þar kom fram að nauðsynlegt er að huga sérstaklega að barnaprógrömmum, en oftast er geislasparandi tækni til staðar upp að því marki sem við er að búast miðað við aldur tækja.

Þorgeir Sigurðsson flutti tvo fyrirlestra á ráðstefnunni. Annar var um ljósabekki og sólbruna á Íslandi þar sem hann fjallaði um notkun ljósabekkja, hvort fólk sólbrennur heima eða erlendis og breytingar á tíðni sortuæxla. Hinn fyrirlestur Þorgeirs fjallaði um uppsöfnun náttúrulegra geislavirkra efna við hagnýtingu jarðhita á Íslandi, en við þær einstöku jarðfræðilegu aðstæður sem eru á Reykjanesi hafa fundist náttúruleg geislavirk efni í útfellingum í jarðhitarörum. Greinar um bæði efni birtust í ráðstefnuritinu og má lesa hér.  Þorgeir birti einnig veggspjald um NORGIR sem er norrænn vettvangur um notkun jónandi geislunar í iðnaði.

Gísli Jónsson fjallaði um radon í inni- og útilofti á Íslandi, en radon í andrúmslofti á Íslandi er með því minnsta sem gerist og hverfandi munur er á styrk radons á milli landshluta. Í fyrirlestrinum kynnti Gísli einnig nýja aðferð til samfelldra radonmælinga sem hefur verið í þróun á Íslandi.

Nellý Pétursdóttir birti veggspjald á ráðstefnunni um tíðni læknisfræðilegra röntgenrannsókna á Íslandi 2013.