Nýlega voru gefnar út í Bretlandi nýjar leiðbeiningar um notkun geislahlífa á sjúklinga í læknisfræðilegri myndgerð: „Guidance on using shielding on patients for diagnostic radiology applications“. Leiðbeiningarnar eru gefnar út af BIR (The British Institute of Radiology). 

Ritið markar tímamót þar sem ekki er lengur mælt með að nota geislahlífar á sjúklinga en notkun þeirra hefur verið viðtekin venja um áratuga skeið. 

Að baki liggur ítarlegt endurmat á áhættunni sem fylgir notkun jónandi geislunar, áhrifum tækniframfara og hvernig kröftum þeirra sem skipuleggja og framkvæma rannsóknir er best varið í þágu geislavarna sjúklings. 

Það er sérstaklega áhugavert fyrir geislafræðinga og röntgenlækna að kynna sér þessar leiðbeiningar og rök Bretanna fyrir þessari sögulegu stefnubreytingu.  Áhugasamir geta skráð sig á vef-fyrirlestur BIR um efnið sem er í hádeginu mánudaginn 27. apríl.  Ekkert skráningargjald er á fyrirlesturinn sem endurspeglar áherslu BIR á mikilvægi þess að kynna þessa nýju stefnu.