Stjórn Norrænna kjarnöryggisrannsókna (Nordisk Kernsikkerheds- forskning, NKS) hélt fund í Reykjavík þann 19. nóvember 2008.
Sigurður M Magnússon, fortjóri Geislavarna ríkisins er stjórnarformaður NKS og er hann fyrsti Íslendingurinn sem gegnir því hlutverki. Á fundinum voru samþykktar tillögur um auknar fjárveitingar til rannsókna.
NKS er samstarfsvettvangur norrænna geislavarna- og kjarnorkueftirlitsstofnana um rannsóknir sem varða öryggi kjarnaofna, viðbúnað og geislavistfræði. Geislavarnir ríkisins taka virkan þátt í verkefnum styrktum af NKS.
Verkefnin skiptast í tvö meginsvið:
1. Öryggi í kjarnorkuiðnaði
2. Geislunarviðbúnaður og rannsóknir í geislavistfræði
Á fundinum var m.a. úthlutað rúmlega 100 milljónum króna í rannsóknastyrki og á næsta fundi stjórnarinnar sem verður í maí 2009 verður úthlutað rúmlega 35 milljónum króna í rannsóknastyrki.
Geislavarnir taka þátt í 4 verkefnum sem styrk hlutu að þessu sinni. Um er að ræða verkefni er tengjast geislunarviðbúnaði og rannsóknum í geislavistfræði.
Fjárhagsrammi NKS samstarfsins á árinu 2009 verður um 200 milljónir króna. Þar af nemur framlag Geislavarna ríkisins til NKS á árinu 2009 um 3.5 milljónum króna en greiðslur NKS til Geislavarna á árinu 2009 munu nema um 8.5 milljónum króna.
Nánari upplýsingar um starfsemi NKS má finna á heimasíðunni: http://www.nks.org/ eða hjá Sigurði M. Magnússyni, sími 552 8200.
SMM