Rúmlega 40 fulltrúar geislavarnastofnana í 22 ríkjum Evrópu funduðu á Íslandi dagana 26. og 27. júní síðastliðinn en Ísland fer með formennsku í samtökunum til ársloka 2015.

Samtök evrópskra geislavarnastofnana, HERCA, voru stofnuð árið 2007 og eiga í þeim sæti 49 geislavarnastofnanir í 31 landi Evrópu.  Markmið samtakanna er að auka og efla samstarf um geislavarnir í ríkjum Evrópu. Löggjöf um geislavarnir er samræmd innan Evrópusambandsins en Ísland, Noregur og Sviss hafa einnig samræmt sína löggjöf í geislavörnum löggjöf Evrópusambandsins. Eitt helsta verkefni samtakanna er að stuðla að aukinni samræmingu á framkvæmd löggjafarinnar. Á vegum þeirra starfa margir vinnuhópar og er sérstök áhersla lögð á geislavarnir við læknisfræðilega notkun geislunar og samræmd viðbrögð við geisla- og kjarnorkuslysum.

Að sögn Sigurðar M. Magnússonar sem gegnir formennsku í samtökunum tókst fundurinn mjög vel. Sérstakir gestir fundarins voru formaður og vísindaritari Alþjóða geislavarnaráðsins, ICRP, en ráðleggingar þess eru lagðar til grundvallar alþjóðlegum öryggiskröfum í geislavörnum. Á fundinum var tekin ákvörðun um nánara samstarf HERCA og ICRP en það mun auka áhrif HERCA á alþjóðlegar öryggiskröfur um geislavarnir.  Á fundinum var einnig fjallað um læknisfræðilega notkun geislunar og viðbúnað vegna geisla- og kjarnorkuslysa.  Meðal annars var skýrsla starfshóps um lærdóm af kjarnorkuslysinu í Fukushima samþykkt. Í skýrslunni er að finna margvíslegar tillögur um samræmd viðbrögð í Evrópu við kjarnorkuslysum sem verða í öðrum heimsálfum.

Nánari upplýsingar um Samtök evrópskra geislavarnastofnana og starfsemi þeirra má finna á www.herca.org.

Þátttakendur á fundi HERCA í Þjóðmenningarhúsinu dagana 26. - 27. júní 2013

Þátttakendur á fundinum stilltu sér upp í Þjóðmenningarhúsinu.