NKS er samstarfsvettvangur norrænna geislavarna- og kjarnorkueftirlitsstofnana um rannsóknir sem varða öryggi kjarnaofna, viðbúnað og geislavistfræði. Geislavarnir ríkisins hafa um árabil tekið virkan þátt í verkefnum styrktum af NKS. Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins hefur verið stjórnarformaður NKS frá árinu 2006.   

Verkefni styrkt af NKS skiptast í tvö meginsvið:
     1. Öryggi í kjarnorkuiðnaði
     2. Geislunarviðbúnað og rannsóknir í geislavistfræði

Á stjórnarfundinum var m.a. úthlutað rúmlega 160 milljónum króna í rannsóknastyrki. Geislavarnir stjórna einu þeirra verkefna sem styrk hlutu að þessu sinni og taka þátt í fjórum öðrum verkefnum. Um er að ræða fjölbreytt verkefni sem tengjast geislunarviðbúnaði og mati á áhrifum hugsanlegra kjarnorkuslysa.

Eitt þeirra verkefna sem Geislavarnir taka þátt í fjallar um mat á áhrifum hugsanlegra kjarnorkuslysa á norræn hafsvæði. Háskóli Íslands tekur einnig þátt í því verkefni. Í öðru verkefni verður lagt mat á langtímaafleiðingar alvarlegs kjarnorkuslyss  á Norðurlöndum fyrir fólk, umhverfi og samfélag en kjarnorkuver eru starfrækt bæði í Svíþjóð og Finnlandi. Einnig er kjarnaofn til rannsókna starfræktur í Noregi. Hin verkefnin sem Geislavarnir taka þátt í fjalla um mælingar á geislavirkum efnum með ýmsum hætti sem og samanburðarmælingar og þróun mæliaðferða.

Nánari upplýsingar um starfsemi NKS veitir Sigurður M. Magnússon, sími 440 8200
http://www.nks.org/