Sól á bláum himni

Sól á bláum himni

Það fer ekkert á milli mála að sumarið er komið. Sólböð geta verið góð en best í hófi. Geislavarnir telja því ástæðu til að minna fólk á að fara varlega í sólinni.

Geislavarnir og fleiri mæla svokallaðan UV stuðul en samkvæmt mælingum þá fór hann aldrei yfir 6 í síðustu viku, en það eru þau mörk sem talið er að kalli á sérstaka aðvörun. Engu að síður eru mörg dæmi um að fólk hafi roðnað á húð og jafnvel brunnið í sólinni.

Við viljum því minna fólk á að verja sig gegn geislun sólarinnar, annaðhvort með góðum áburði, flíkum eða takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sól. Við minnum alveg sérstaklega á börnin í þessu sambandi. Á síðu Landlæknisembættisins, Verum klár í sólinni, er að finna ýmis ráð sem gott er að rifja upp núna í upphafi sumars.