Lög og reglugerðir
Markmið með lögum nr. 44/2002 um geislavarnir var aðlögun íslenskrar löggjafar á sviði geislavarna og framkvæmdar hennar að tilskipunum Evrópu Sambandsins á sviði geislavarna og framkvæmdar þeirra í aðildarríkjum sambandsins. Aukin áhersla er lögð á ójónandi geislun, viðbúnað, vöktun og læknisfræðilega geislun.
Lög nr. 28/2008 um breytingar á lögum nr. 44/2002 tóku gildi 1. janúar 2009. Markmið laga nr. 28/2008 er einkum að einfalda framkvæmd eftirlits stofnunarinnar og draga úr reglubundnu tæknilegu eftirliti en auka áherslu á ábyrgð notenda, virk gæðakerfi og mat á geislaálagi sjúklinga. Einnig er aukin áhersla á mælifræði og viðbúnað.
Lög nr. 82/2010 um breytingar um lögum nr. 44/2002 tóku gildi 1. janúar 2011. Með breytingunum verður einstaklingum yngri en 18 ára óheimil notkun af sólarlömpum, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Lög nr. 121/2013 um breytingu á lögum nr. 44/2002 um geislavarnir tóku gildi 1. janúar 2014. Með breytingunum er samræmi við alþjóðlegar öryggiskröfur og nýlega löggjöf Evrópusambandsins (2013/59/Euratom) aukið. Aðrar breytingar, svo sem þrepaskipt nálgun í eftirliti og aukin ábyrgð leyfishafa og notenda endurspegla enn aukna áherslu á geislavarnir við læknisfræðileg geislun enda vegur hún mjög þungt í geislaálagi Íslendinga.
Hér má finna lög og reglugerðir sem varða Geislavarnir ríkisins. Það skal þó tekið fram að prentuð útgáfa þessa efnis gildir alltaf fram yfir vefasíðurnar komi ósamræmi í ljós.
Reglugerðir sem varða hámörk geislunar
- 1290/2015 Reglugerð um hámörk geislunar starfsmanna og almennings vegna starfsemi þar sem notuð er geislun
Reglugerðir sem varða geislatæki
- 1299/2015 Reglugerð um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun.
Viðmið
Athugið að Geislavarnir ríkisins gefa út leiðbeiningar varðandi nánari útfærslu á reglugerðum.