Viðmið fyrir reglubundið eftirlit GR með notkun geislatækja og geislavirkra efna

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 44/2002 um geislavarnar, annast Geislavarnir ríkisins (GR) reglubundið eftirlit með notkun geislavirkra efna og geislatækja og skal eftirlitið taka mið af þeirri áhættu sem notkuninni fylgir. Skv. 66. gr. reglugerðar um geislavarnir vegna notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun (1299/2015) gefa GR út viðmið um tíðni reglubundins eftirlits byggt á áhættuflokkun geislatækja.

Notkun geislatækja og geislavirkra efna er háð leyfi GR og leyfishafar eru flokkaðir eftir umfangi og eðli notkunarinnar og ætlaðri áhættu vegna notkunar gagnvart starfsmönnum, almenningi og sjúklingum. Leyfishafi flokkast í efsta flokk sem við á um starfsemina og að jafnaði fer eftirlit fram með öllum þáttum notkunar á hverri starfsstöð leyfishafa í einu.

Flokkun leyfishafa í eftirlitsflokka:

Eftirlitsflokkur Lýsing
Eftirlitsflokkur 1 Umfangsmikil notkun við læknisfræðilega myndgreiningu (>5000 rannsóknir á ári)
Þar sem fram fer framleiðsla geislavirkra efna
Þar sem notuð eru tölvusneiðmyndatæki (önnur en CBCT)
Rannsóknarstofur með opnar geislalindir í flokki A eða B (sbr. GR 04:02)
Þar sem fram fer geislameðferð
Þar sem notaðar eru lokaðar geislalindir í hættuflokki 1 og 2
Eftirlitsflokkur 2 Mikil notkun við læknisfræðilega myndgreiningu (1000-5000 ranns. / ári)
Þar sem notuð eru sérhæfð geislatæki við tannlækningar (t.d. CBCT)
Þar sem notuð eru sérhæfð geislatæki við dýralækningar
Geislatæki í opinni aðstöðu við öryggisgæslu eða í iðnaði (gámaskoðun, NDT)
Rannsóknarstofur með opnar geislalindir í flokki C (sbr. GR 04:02)
Þar sem notaðar eru lokaðar geislalindir í hættuflokki 3
Eftirlitsflokkur 3 Læknisfræðileg myndgreining þar sem rannsóknir eru færri en 1000 á ári
Almenn notkun geislatækja við dýralækningar
Þar sem notaðar eru lokaðar geislalindir í hættuflokki 4
Eftirlitsflokkur 4 Þar sem skermuð geislatæki eða efnagreiningartæki með lágorkugeislun eru notuð við öryggisgæslu eða í iðnaði
Almenn notkun geislatækja við tannlækningar
Þar sem notaðar eru lokaðar geislalindir í hættuflokki 5

Tíðni eftirlits

Eftirlit með leyfishöfum í eftirlitsflokki 1 fer að jafnaði fram á 2 ára fresti og að jafnaði á þriggja, fjögurra og fimm ára fresti með leyfishöfum í eftirlitsflokki 2, 3 og 4.

Geislavarnir ríkisins geta aukið tíðni eftirlits tímabundið, með hluta eða allri starfsemi leyfishafa eftir því sem ástæða þykir til.  Þetta getur til dæmis átt við um:

  • búnað sem sýnt er að vegi þungt í geislaálagi þjóðarinnar
  • geislavirk efni sem gætu valdið auknu geislaálagi á almenning
  • breytingar á geislunaraðstöðu eða notkunaraðstöðu geislavirkra efna
  • ef atvik verða eða kvartanir berast
  • ef ekki er brugðist við kröfum um úrbætur eftir reglulegt eftirlit

Reglubundið eftirlit getur farið fram án þess að farið sé á staðinn, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem stofnunin setur.

Viðmið endurskoðað 12. febrúar 2021