Í október 2011 var sett reglugerð nr. 954/2011 sem takmarkar innflutning og notkun leysibenda (sjá eldri frétt). Geislavarnir ríkisins hafa síðan þá sinnt markaðseftirliti með öflugum leysibendum til að framfylgja reglugerðinni.

Allnokkur mál hafa komið upp á árinu sem benda til þess að gagnlegt sé að rifja upp einstök atriði um öfluga leysibenda, flokkun þeirra, hættuna af þeim og kröfur reglugerðarinnar.

Flokkar leysa

Allir leysar, hvort sem þeir eru leysibendar eða annarskonar, eru flokkaðir samkvæmt alþjóðlegum stöðlum eftir útgeislunarafli og stærð geislans. Flokkarnir eru 1 (aflminnstu) 2, 3, og 4 (aflmestu). Sumir leysar gefa frá sér dreifða geisla og því er ekki hætta á að allt útgeislunaraflið falli inn í auga. Þeir hljóta aðra flokkun en sambærilega öflugir leysar með mjóan geisla. Sumir leysar eru innbyggðir með fasta geislunarstefnu í ómeðfærileg tæki, og eru jafnvel skermaðir (til dæmis í geislaspilarum og myndspilurum). Af slíkum leysum stafar ekki hætta.

Leysar sem eru seldir sem leikföng skulu vera í flokki 1 sem þýðir að geislunin frá þeim er skaðlaus. Foreldrar og gæludýraeigendur ættu að gæta þess að kaupa ekki öflugri leysa sem leikföng þótt þeir séu í boði, til dæmis á netinu eða hjá götusölum erlendis.

Leysibendar

Leysibendar hafa mjóan geisla, eru óskermaðir, og geislanum má auðveldlega beina hvert sem er. Öflugur leysibendir er leysibendir sem er í flokki 3 eða 4, sem þýðir að að geislun frá honum er meiri en 1 mW. Við þau mörk er hætta á því, lendi geislinn á auga, að sjónskaði verði hraðar en augað nær að blikka.

Hætta af völdum öflugra leysibenda

Geislavarnir ríkisins hafa áður fjallað um hættuna sem augum stafar af leysibendum. Dæmi eru um að flugmenn og ökumenn bifreiða verði fyrir truflunum af völdum öflugra leysibenda. Í dag má finna mjög öfluga leysibenda, yfir 100 mW og jafnvel 1000 mW, sem eru enn hættulegri (til dæmis vegna bruna á húð og íkvekju). Augnskaði getur hlotist af því einu að horfa á blett sem slíkir leysibendar mynda, því endurkastið er það bjart.

Kröfur reglugerðar

Í stuttu máli kveður reglugerð nr. 954/2011 á um að innflutningur öflugra leysibenda sé tilkynningaskyldur og notkun þeirra bönnuð nema með sérstöku leyfi frá Geislavörnum ríkisins. Leyfi fyrir notkun öflugra leysibenda er eingöngu veitt ef fyrir liggur rökstuðningur um réttlætanlega notkun með tilliti til áhættu sem krefst þess að leysirinn sé sterkari en 1 mW. Engin þörf er á öflugri leysibendi en 1 mW við alla venjulega notkun og leysibendar sem seldir eru almennum neytendum mega aldrei vera sterkari en það.