Umræða um rafsegulsvið og rafsegulgeislun kemur annað slagið upp í fjölmiðlum.

Rafhlaðnar agnir á hreyfingu mynda bæði raf- og segulsvið. Þessi fyrirbæri eru nátengd og því er oft talað um rafsegulsvið. Rafsegulsvið fylgir notkun rafmagnstækja og hafa Geislavarnir, í samvinnu við Brunamálastofnun, gert rannsókn á rafsegulsviði á heimilum í Reykjavík. Rafsegulsviðið reyndist sambærilegt við það sem er annars staðar á Norðurlöndunum og gáfu niðurstöðurnar ekki tilefni til neinna aðgerða (sjá skýrslu frá árinu 2010). Stóraukin notkun þráðlausra tækja og búnaðar, þar á meðal notkun farsíma, rafmagnshitunar og þráðlausra neta, hefur leitt til umræðu um hvort geislun frá rafsegulsviðum geti skaðað heilsu fólks.

Sumir rekja ýmis einkenni, svo sem höfuðverk, svefntruflanir og þreytu, til rafsegulsviða. Þótt sjúkdómseinkennin séu raunveruleg eru engar afgerandi vísindalegar sannanir fyrir því að þau séu af völdum rafsegulsviða (tengill á álit vísindanefndar Evrópusambandins um nýgreinda og vaxandi heibrigðisáhættu, SCENIHR) Geislavarnir benda fólki á að leita ávallt eftir áliti læknis vegna líkamlegra einkenna til þess að hægt sé að bregðast við með réttum hætti.

Viðmiðunarmörk

Alþjóðaráð um ójónandi geislun (ICNIRP) hefur gefið út ráðleggingar um mörk fyrir ójónandi geislun.  Evrópusambandið miðar við þessu mörk og þetta eru þau mörk sem allar Norðurlandaþjóðirnar miða við í sinni löggjöf.

Í sameiginlegri yfirlýsingu norrænu geislavarnastofnananna segir að samanteknar niðurstöður rannsókna sem birst hafa í vísindaritum til þessa sýni ekki skaðleg heilsufarsáhrif frá rafsegulgeislun við þráðlaus samskipti sem eru að styrk fyrir neðan þau viðmiðunarmörk sem tekin hafa verið upp á Norðurlöndum.

Hvað gera Geislavarnir?

Geislavarnir ríkisins fylgjast með umræðunni um rafsegulsvið og hugsanleg skaðleg áhrif þeirra. Tiltölulega einfalt er að mæla rafsegulsvið en til að fá rétta mynd er nauðsynlegt að vera með góðan mælibúnað. Geislavarnir ríkisins eiga slíkan búnað. Hann er kvarðaður reglulega sem þýðir að búnaðurinn er reglulega sendur á viðurkennda kvörðunarstofu þar sem hann er yfirfarinn með tilliti til þess að hann sýni rétt gildi.

Geislavarnir fylgjast með rafsegulsviði frá fjarskiptabúnaði í nánu samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun.  Nú er í gangi sameiginlegt verkefni þessara tveggja stofnana sem gengur út á að mæla rafsegulsvið víðsvegar í Reykjavík og nágrenni. Niðurstöður verkefnisins verða birtar þegar þær liggja fyrir á heimasíðum stofnananna. Fyrsti hluti þessa verkefnis er að leggja mat á rafsegulgeislun frá farsímasendum. Alls hafa verið gerðar mælingar á 26 stöðum á þessu ári, en bráðabirgðaniðurstöður þessara mælinga sýna allar mæligildi sem eru langt innan gildandi viðmiðunarmarka.