Hafin er í Jórdaníu æfing í vettvangsrannsókn til að sannreyna hvort gerð hafi verið tilraun með kjarnorkuvopn. Æfing þessi er sú umfangsmesta sinnar tegundar til þessa. Hún fer fram nærri Dauðahafinu og stendur í 5 vikur. Vettvangsrannsókn (e: On-site inspection) er síðasta úrræðið sem gert er ráð fyrir í alþjóðasamningi um allsherjarbann við kjarnorkutilraunum (CTBT) og verður hægt að grípa til þess þegar sáttmálinn hefur öðlast gildi. Er því ætlað að staðfesta endanlega hvort gerð hafi verið tilraunasprenging eður ei. Við þetta er beitt margvíslegum aðferðum við rannsóknir á allt að 1000 ferkílómetra svæði. Undanfari slíkrar rannsóknar yrði m.a. rökstuddur grunur um kjarnorkusprengingu, byggður á gögnum úr alþjóðlegu eftirlitskerfi eða öðrum áreiðanlegum gögnum, samráðs- og upplýsingaferli, og að lokum ákvörðun framkvæmdaráðs CTBTO um að vettvangsrannsókn skyldi fara fram. Samkvæmt ákvæðum sáttmálans skulu sérþjálfaðar eftirlitssveitir hefja rannsókn innan 6 daga frá slíkri ákvörðun, enda mikilvægt að hefja hana sem fyrst svo hún megi skila tilætluðum árangri.

Undirbúningur að æfingunni hefur staðið í fjögur ár og taka um 200 sérfræðingar frá aðildarríkjum alþjóðasáttmálans þátt í aðgerðunum.

Um æfinguna má lesa á vef CTBTO; þar er m.a. að finna aðgengilegt myndefni og daglegt blogg frá vettvangi.

Geislavarnir ríkisins fara með eftirlit með framkvæmd laga um framkvæmd samnings um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og samningsins, og annast ennfremur rekstur einnar af mælistöðvum hins alþjóðlega eftirlitskerfis CTBTO.

Fyrri tengdar fréttir á vef Geislavarna