Tíðni húðkrabbameina hefur aukist mjög verulega á undanförnum árum, sérstaklega hjá ungum konum 15 – 34 ára og meira á Íslandi en annarstaðar á Norðurlöndum. Vitað er að útfjólublá geislun frá sól getur valdið húðkrabbameini og sterkur grunur er um að notkun ljósabekkja auki hættu á húðkrabbameini, sérstaklega þegar ungt fólk á í hlut.

Reglur á Íslandi um ljósabekki eru sambærilegar við reglur annarra Norðurlanda.

Samstarfshópur um útfjólubláa geislun sem Geislavarnir áttu frumkvæði að á árinu 2003 og í eru fulltrúar Krabbameinsfélags, Landlæknis, Lýðheilsustöðvar og Félags húðlækna, auk fulltrúa Geislavarna, hefur haldið uppi margþættri fræðslu um skaðsemi ljósabekkja undanfarin ár, sbr. árlegt átak „Hættan er ljós“, þar sem m.a. birtast margar auglýsingar í fjölmiðlum til að vekja athygli á hættunni. Frá árinu 2004 hefur notkun ljósabekkja jafnframt árlega verið könnuð af Gallup sem hluti af átakinu.

Notkun ljósabekkja á Íslandi hefur minnkað verulega undanfarin ár, en því miður minnst hjá yngstu aldurshópunum. Þannig höfðu 30% Íslendinga á aldrinum 16-75 ára notað ljósabekki á árinu 2003 en tæplega 20% á árinu 2008. Ef horft er sérstaklega til aldurshópsins 12-23 ára höfðu tæplega 50% notað ljósabekki á árinu 2003 en tæplega 40% á árinu 2008.

Vegna þess að fræðsla og vitneskja um mögulega skaðsemi virðist ekki nægja til þess að ungt fólk dragi úr eða hætti notkun ljósabekkja hefur umræða um aldursmörk í ljósabekki aukist. Að mörgu þarf að huga í því samhengi, svo sem löggjöf á þessu sviði og framkvæmd hennar.

Forstjórar norrænu geislavarnastofnananna ákváðu á fundi sínum í júní sl. að vinna sameiginlega að innleiðingu á 18 ára aldursmörkum í ljósabekki á Norðurlöndum.

Sjá einnig frétt sem birt var síðar sama dag (29.7) á vef Geislavarna ríkisins