Í Noregi, eins og á Íslandi, eru ýmsir sem hafa áhyggjur af hugsanlegum áhrifum örbylgjugeislunar frá GSM-símum og þráðlausum netum. Í Syðri- Þrændalögum hefur fylkislæknir sent Norsku geislavörnunum (Statens Strålevern) bréf um þetta og óskað eftir greinargerð. Norsku geislavarnirnar hafa af því tilefni gert mælingar í miðbæ Þrándheims(Trondheim) sem sýna mjög lág gildi.

WHO og Alþjóðaráð um ójónandi geislun (ICNIRP) hafa sett 10 W/m2 sem hámarksgildi fyrir umrædda geislun en gildin sem mældust voru minni en 1/10 000 hluti af þeirri tölu. Frá þessu segir nánar á heimasíðu Norsku geislavarnanna www.nrpa.no

Geislavarnir ríkisins hafa undanfarin ár fylgst með styrk geislunar frá sendimöstrum fyrir GSM-síma og fyrir 3. kynslóð af símum og munu gera það áfram. Styrkur frá slíkum sendum er ekki nálægt ICNIRP-mörkum við eðlilegar aðstæður. Dæmigert er að styrkurinn sé innan við hundraðs- eða þúsundasta hluta af þeim.

Geislavarnir ríkisins munu fylgjast með uppbyggingu þráðlausra neta á Seltjarnarnesi og annars staðar og gera mælingar til að staðfesta að geislun sé innan settra marka. Stofnunin mun einnig halda áfram að fylgjast með umræðu um þessi mál og niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna en hún telur að ekki hafi enn komið fram rök fyrir því að miða við önnur viðmiðunarmörk en mælt er með af ICNIRP.

Í norska blaðinu Aftenposten er ýtarleg umfjöllun þar sem vísað er í frekari upplýsingar:

http://forbruker.no/digital/nyheter/data/article2097124.ece

Sjá vefsíðu norsku geislavarnanna um mælingar í Trondheim.