Í nýlegri frétt sem birtist á vefsíðu Herald Tribune er sagt að ungt fólk, yngra en 35 ára, sé 98% líklegra til að fá sortuæxli ef það notar ljósabekki.

Þessi frétt byggir á rannsókn sem er ein af mörgum sem bendir sérstaklega á hættu vegna geislunar á unga húð. Fólk um þrítugt er hér talið með ungu fólki.

Ein vandaðasta rannsókn sem gerð hefur verið á sambandi sortuæxla og ljósabekkjanotkunar var gerð á Norðurlöndum og birt árið 2003 [1]. Í könnuninni var fylgst með ljósabekkjanotkun um 100.000 norskra og sænskra kvenna að meðaltali í átta ár, en á þeim tíma komu fram 187 tilvik af sortuæxlum hjá þessum hópi.

Þessi Norræna könnun leiddi meðal annars í ljós að þær konur sem notuðu ljósabekki oftar en einu sinni í mánuði og voru á aldrinum 20-29 ára voru 158% líklegri til að fá sortuæxli en þær konur sem ekki notuðu ljósabekki (Þessi tala er á milli 48% og 350% með 95% öryggismörkum sem þýðir að aukin áhætta er mjög líkleg).

Hér er ekki um óvenju mikla ljósabekkjanotkun að ræða þar sem þeir sem á annað borð nota ljósabekki gera það að jafnaði u.þ.b. einu sinni í mánuði, skv. könnunum sem m.a. hafa verið gerðar á Íslandi.

Lengi hefur grunur leikið á að mikil notkun ljósabekkja gæti aukið tíðni húðkrabbameina og langt er síðan farið var að vara fólk með óvenju ljósa eða viðkvæma húð við því að nota ljósabekki. Það er hinsvegar ekki fyrr en nýlega að athyglin fór sérstaklega að beinast að ungu fólki.

Í fræðsluátakinu Hættan er ljós sem Geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélag Íslands, Landlæknir, Lýðheilsustofnun og Félag húðlækna hafa staðið fyrir árlega frá árinu 2004, er sérstaklega varað við ljósabekkjanotkun fermingarbarna. Þegar farið var af stað með þetta átak var algengt að auglýsingum um ljósabekki væri beint að þessum börnum en slíkt þekktist varla í öðrum löndum.

Geislavarnastofnanir á Norðurlöndum, þar á meðal Geislavarnir ríksins vöruðu í sameiginlegri yfirlýsingu árið 2005 við allri ljósabekkjanotkun og sérstaklega við notkun fólks yngra en 18 ára og fólks með viðkvæma húð.

Tilvísanir:

[1] Veierod, M.B., et al., A prospective study of pigmentation, sun exposure, and risk of cutaneous malignant melanoma in women. J Natl Cancer Inst, 2003. 95(20): p. 1530-8.

Annað:

Frétt um álit Vísindanefndar Evrópusambandsins um ljósabekki þar sem m.a. er sagt frá Norrænu könnuninni

Frétt í Herald Tribune

Frétt um fræðsluátakið Hættan er ljós, árið 2008