Uppruna Cs-137 (sesíns-137) í jarðvegi á Íslandi má rekja til tilraunasprenginga kjarnorkuveldanna í andrúmslofti í kringum 1960. Vel er þekkt að geislavirk efni dreifðust til jarðar, sérstaklega á norðurhveli. M.a. hafa rannsóknir Geislavarna ríkisins sýnt að þau er að finna í yfirborðslagi jarðvegs á Íslandi og því getur tilflutningur þeirra með vindi leitt til þess að þau komi fram í geislamælingum á svifryki, eins og raunin varð í janúar s.l. Um smávægilegt magn er að ræða (< 2µBq m3) en það er þó mælanlegt með hinum öfluga tækjabúnaði sem Geislavarnir starfrækja í umboði CTBTO (Comprehensive Nuclear-Test-Ban Treaty Organization) við Veðurstofu Íslands. Tilgangur þessara mælinga er að sannreyna að ekki sé brotið á alþjóðasáttmála um allsherjarbann við kjarnorkusprengingum. Eftirlitsstöð þessi er hluti hnattræns kerfis sem sendir gögn til gagnamiðstöðvar í Vínarborg þar sem þau eru greind. Greinist geislavirk efni í loftsíum úr kerfinu sem gætu bent til kjarnorkusprengingar fer af stað ferli þar sem safnað er veðurgögnum og með reiknilíkönum rakið hvar uppruninn geti verið. Eftirlitskerfið safnar einnig gögnum um jarðhræringar og hljóðbylgjur í andrúmslofti og hafi. Með samnýtingu allra þessara gagna fæst býsna glögg mynd af því hvort sprengd hafi verið kjarnorkusprengja, og þá hvar.
Nánari upplýsingar má m.a. nálgast í fyrri fréttum á vef Geislavarna.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvert uppruni efna sem mældust í loftsíu í Reykjavík er rakinn. Söfnun sýnisins stóð yfir frá 11.-12. janúar 2011 og inniheldur það svifryk úr 14.288 m3 af lofti. Þessa daga var svifryksmengun það mikil í Reykjavík að þess var getið í fréttum.

Myndmedfretta08022011

Bláu doppurnar á kortinu sýna eftirlitsstöðvar CTBTO sem safna svifryki og greina geislavirkni í því. Guli liturinn sýnir það svæði sem loftmassi kom frá þá daga sem sýninu var safnað. Vindátt var austlæg og bar því svifryk frá hálendi til Reykjavíkur.

KG