Eins og greint hefur verið frá hefur snefill af geislavirka efninu rúþen-106 (Ru-106) mælst í andrúmslofti víðsvegar um Evrópu á síðustu vikum, og raunar víðar. Ekki hefur reynst unnt að rekja efnið til ákveðinnar uppsprettu, þrátt fyrir viðleitni Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) og einstakra aðildarríkja hennar. IAEA hefur safnað mæliniðurstöðum frá aðildarríkjum og óskað eftir upplýsingum sem varpað gætu ljósi á málið. Þar sem efnið hefur mælst hefur styrkur þess verið frá nokkrum míkróbekerelum í rúmmetra lofts (µBq/m3) upp í nokkra tugi millíbekerela (mBq/m3). Þetta er lágur styrkur og hefur ekki heilsufarsleg áhrif, en vekur athygli vegna þess að ekki er algengt að rúþen-106 greinist í andrúmslofti eitt og sér. Það verður til við kjarnaklofnun, en þar sem ekki mælast önnur geislavirk efni sem myndast á sama hátt má telja útilokað að það komi frá óhappi í kjarnorkuveri.

Hvergi hefur þótt ástæða til að grípa til varúðarráðstafana vegna þessa, enda áætlað geislaálag á almenning mjög langt undir þeim mörkum sem miðað er við. Þess má geta að efnið hefur ekki mælst á Íslandi.

Þekkt er að rúþen-106 er notað við meðferð krabbameins í auga, en jafnvel þótt efni frá geislalind úr slíkum meðferðarbúnaði hefði dreifst til umhverfis, t.d. vegna eldsvoða, væri ólíklegt að það myndi mælast eins víða og raunin er nú. Líklegra er að efnið megi rekja til framleiðanda slíkra linda.

Hægt er að nota rúþen-106 til að knýja rafala en það er ekki algengt.  Meðal þess sem hefur verið skoðað er hvort gervitungl eða annað með slíkum búnaði hafi komið inn í gufuhvolfið, en Útgeimsskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNOOSA) hefur staðfest að ekkert slíkt hafi gerst.

Enn er því ekki vitað hver uppspretta þessa efnis er, en af loftstraumalíkönum má einna helst ráða að hún sé á svæðinu milli Volgograd og sunnanverðra Úralfjalla.