Í sumar var skýjað í Reykjavík þá daga sem mátti búast við mestum styrk útfjólublárrar geislunar. Aðra daga var styrkur geislunar ýmist lítill eða miðlungs.

Geislavarnir ríkisins hafa fylgst með styrk útfjólublárrar geislunar í Reykjavík og á  Egilsstöðum tvö síðastliðin sumur. Styrkur geislunarinnar er miðaður við svokallaðan UV-stuðul (UV-index eða ÚF-stuðul) sem reiknaður er út frá gervitunglamælingum.  Miðað er við sólarhádegi (kl 13:30) og heiðskíran himin. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar, uv.gr.is.

Í fyrra fór UV-stuðullinn aðeins einu sinni upp í 6 en það gerðist 28. maí 2012. Þann dag skein sól í Reykjavík og margir fylgdust með flugsýningu á Reykjavíkurflugvelli. Sólvörn með háum stuðli (SPF) hefði gagnast mörgum þann dag.

Í sumar gerðist það fjórum sinnum að reiknaður UV-stuðull fór í 6. Þetta var þjóðhátíðardaginn 17. júní og þrjá daga í júlí: 9., 10. og 18. júlí. Alla þessa daga var skýjað (skýjahula 6/8 til 8/8) í Reykjavík og raunveruleg geislun við sjávarmál var því talsvert minni en reiknaður stuðull gefur til kynna.

Gervitunglamælingar sýndu aldrei UV-stuðullinn 6 (þ.e. hærri en 5,5) á Egilsstöðum, hvorki í sumar né síðastliðið sumar.

Til samanburðar má geta þess að UV-stuðullinn 12 er algengur við Miðjarðarhaf og er það jafnframt mesti leyfilegur styrkur í ljósabekkjum.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin , WHO, flokkar geislun með UV-stuðul 1 eða 2 sem litla (low). Geislun með UV-stuðul 3, 4 eða 5 er miðlungs (e. moderate).  Geislun með UV-stuðul 6 eða 7 er mikil (high). Á Íslandi er geislun lítil meirihluta ársins, þ.e. UV-stuðull er 2 eða lægri.

Alþjóðleg flokkun útfjólublárrar geislunar

Alþjóðleg flokkun á styrk útfjólublárrar geislunar.  Af vefsíðu WHO.

 UV mælir Gr

UV-mælir Geislavarna í Reykjavík.