Vegna nýlegrar umræðu um skynsamlegar varnir og viðbrögð gegn kórónaveirunni telja Geislavarnir ríkisins rétt að hnykkja á nokkrum staðreyndum um útfjólubláa (UV) geislun og áhrif hennar á veirur. Benda má á gagnlega fréttatilkynningu frá þýsku geislavörnunum (Bundesamt für Strahlenschutz, BfS) í þessu sambandi en hún var gefin út á þýsku og ensku.

UV geislun gagnast ekki sem meðferð gegn kórónaveirunni eða COVID-19 sjúkdóminum og ber að vara eindregið við því að reyna slíkt.

Sú hugmynd að sólarljós drepi veirur í mannfólki byggir ekki á staðreyndum. Þvert á móti er ein möguleg afleiðing af útfjólublárri geislun sú að ónæmiskerfi líkamans getur veikst og ætti því veikt fólk að forðast sterkt sólskin burtséð frá því hvaða sjúkdómur hrjáir það. Auk þess er útfjólublá geislun krabbameinsvaldandi, jafnvel í minni styrk en þarf til sótthreinsunar og hún er hættuleg bæði augum og húð, jafnvel í skamma stund.

Þar sem talað er um notkun á útfjólublárri geislun í þessu samhengi er átt við UVC geislun. Útfjólublá geislun af gerð UVC er vissulega notuð til sótthreinsunar margskonar yfirborðs og t.d. vatns. Þessi aðferð er hins vegar alls ekki nothæf til að eyða kórónaveirunni í mönnum, hvorki inni í líkamanum né á húð. Almennt er talað um þrenns konar útfjólubláa geislun:

  • UVA sem hefur bylgjulengd 400-315 nm
  • UVB sem hefur bylgjulengd 315-280 nm
  • UVC sem hefur bylgjulengd 280-100 nm

UVC geislunin er orkumest af ofangreindum UV geislum en berst ekki til jarðar frá sólu vegna lofthjúpsins. Hún er því ekki hluti af því sólarljósi sem jarðarbúar eru vanir og njóta frá náttúrunnar hendi. Sólin geislar frá sér öllum þremur gerðum útfjólublárrar geislunar en einnig er hægt að búa þær til með til þess gerðum lömpum. Útfjólublá geislun er hagnýtt í ýmsu skyni, en aldrei til að drepa veirur í fólki.