Sendinefnd sérfræðinga frá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA) heimsótti Ísland 24. til 26. júní síðastliðinn í því skyni að gera úttekt á fyrirkomulagi og framkvæmd geislavarna á Íslandi og veita ráðgjöf á því sviði. Geislavarnir ríkisins önnuðust undirbúning og skipulagningu úttektarinnar.

Tilgangur hennar var einkum að meta lög og reglugerðir um geislavarnir miðað við öryggisstaðla IAEA, einkum General Safety Requirements Part 1: Governmental, Legal and Regulatory Framework for Safety (GSR 1) og General Safety Requirements Part 3: Radiation Protection and Safety of Radiation Sources (GSR 3). Einnig að meta gildandi vinnuferli við helstu þætti í starfsemi Geislavarna svo sem leyfisveitingar og eftirlit. Úttekt nefndarinnar tók þannig til laga og reglugerða um geislavarnir, svo og umgjarðar um tilurð og útgáfu laga, reglugerða og leiðbeininga sem og leyfisveitingar og eftirlit vegna notkunar jónandi geislunar á Íslandi.

Nefndin kynnti sér og fór yfir lögin og reglugerðirnar, ásamt öðrum gögnum sem send voru nefndinni fyrirfram eða voru lögð fram meðan á úttektinni stóð, þ.á.m. svör við stöðluðum spurningalista frá IAEA. Hún fundaði með starfsfólki Geislavarna og Tollstjóra, Sóttvarnalækni og forstöðumanni Geislaeðlisfræðideildar LSH. Einnig átti nefndin fund með heilbrigðisráðherra.

Helstu niðurstöður úttektarinnar eru m.a. að lög og reglugerðir um geislavarnir séu með ágætum en ekki að fullu í samræmi við öryggisstaðla IAEA og að Geislavarnir ríkisins sinni hlutverki sínu af skilvirkni og fagmennsku en fjöldi sérfræðinga sé ekki alltaf nægur til að inna af hendi öll verkefni stofnunarinnar til fullnustu.

Helstu ráðleggingar nefndarinnar eru m.a. að við næstu endurskoðun laga og reglugerða um geislavarnir verði starfsemi Geislavarna ríkisins styrkt, til betra samræmis við öryggisstaðla IAEA, þannig að öll starfsemi stofnunarinnar, en ekki aðeins reglubundið eftirlit eins og nú er, taki mið af þeirri áhættu sem um er að ræða og að stofnunin geti ákveðið tíðni reglubundins eftirlits fremur en að það sé ákveðið í reglugerðum eins og nú er. Einnig að geta Geislavarna ríkisins til að sinna að fullu hlutverki sínu og lögbundnum verkefnum, einkum á sviði þjálfunar og fræðslu, upplýsinga til almennings, gæðastýringar í heilbrigðiskerfinu ofl. verði styrkt.