Þótt sumarið láti bíða eftir sér hér á landi, er rétt að minna ferðalanga á að fara varlega í sólinni. Sjálfsagt er að njóta sólargeislanna en engu að síður er nauðsynlegt að verja húðina. Þetta á sér í lagi við um þá sem hafa viðkvæma húð. Gæta skal að því að vera ekki lengi óvarinn í sól og skýla sér með klæðnaði eða sólarvörn til að forðast sólbruna. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar börn eiga í hlut.

Árlega brenna margir í sólinni og það getur haft heilsufarslegar afleiðingar.  Sólbruni er skemmd á húðinni og endurteknir sólbrunar geta leitt til húðkrabbameins. Því er full ástæða til aðgæslu og varúðar.

Þegar sólin fer að skína hér á ný, þá bendum við á upplýsingar um styrk útfjólublárrar geislunar (UV – stuðull) á Íslandi á vef Geislavarna: http://uv.gr.is/

Sé UV-stuðullinn 3 eða hærri þá er þörf á sólarvörn. Sé stuðullinn 2 eða hærri þá getur verið þörf á sólarvörn ef verið er lengi út í sólinni. Fróðleik um útfjólubláa geislun og húðkrabbamein má meðal annars finna hér:

https://gr.is/sol-uv-utfjolubla-geislun-2/

http://www.krabbameinsskra.is/