Alþjóðakrabbameinsstofnunin, IARC birti 17. maí 2010 fréttatilkynningu um niðurstöður úr Interphone, alþjóðlegri rannsókn í 13 löndum á farsímanotkun. Athugað var hvort rúmlega 5000 einstaklingar sem fengið höfðu heilaæxli, hefðu notað farsíma meira en aðrir.

         Niðurstöður komu á óvart að því leyti að svo virtist sem venjuleg notkun farsíma dragi lítillega úr líkum á myndun æxla. Þetta er þó ekki talið vera vegna þess að notkun farsíma sé heilsusamleg heldur vegna galla í rannsókninni sem ekki hefur tekist að skýra.

            Þeir sem gáfu upp mesta notkun farsíma virtust vera í lítillega aukinni hættu á að fá heilaæxli. Sú mikla notkun sem um ræðir þykir hinsvegar vera ótrúleg.

            Heildarniðurstaðan er að ekki hafi komið ljós að farsímanotkun auki hættu á heilaæxlum (tróðæxlum og himnuæxlum, enska: glioma, meningioma). Vísbendingar voru um að mesta notkunin yki hættu á tróðæxlum (glioma) en óvíst er um orsakasamhengi þar á milli vegna óvissuþátta og skekkja í rannsókninni. Rannsaka þarf betur áhrif mikillar langtímanotkunar farsíma.

 

 

Fréttatilkynning IARC:

http://www.iarc.fr/en/media-centre/pr/2010/pdfs/pr200_E.pdf

 

Niðurstöður rannsóknar:

http://www.oxfordjournals.org/our_journals/ije/press_releases/freepdf/dyq079.pdf

 

Eldri frétt frá 2005 um Interphone rannsóknina og góðkynja æxli í heyrnartaug (acoustic neuroma) /frettir/nr/197