Þeirri tækni, sem verið er að taka í notkun vegna hertra öryggisráðstafana á flugvöllum, er ætlað að finna allt sem farþegar kunna að leyna innan klæða, jafnvel vökva og efni svipuð líkamanum að samsetningu. Tæknilega er þetta mun erfiðara en að finna fasta hluti eins og t.d. málma.  Til þessa hefur einkum verið beitt tvenns konar tækni:  Lágorku röntgenskannar („soft x-ray scanners“, „backscatter x-ray scanners“) og skannar sem nýta smáar örbylgjur, með bylgjulengd minna en 1 mm („terahertz scanners“).  Fyrri tegundin nýtir jónandi geislun, sú síðari ekki.  Eftir skönnunina tekur við fullkomin myndgreiningartækni í báðum tilvikum sem skapar þrívíddarmynd af yfirborði líkama farþega og lögun þeirra hluta sem kunna að vera á líkamanum.  Myndin getur orðið svipuð óháð því hvor tæknin er notuð við skimunina og getur það því skapað rugling.

Þótt lágorku röntgenskannarnir nýti jónandi geislun, þá er röntgengeislunin með mjög lága orku og lítið afl. Lág orka þýðir að geislinn kemst skammt inn í líkamann og það er einmitt það sem er notað. Tæknin byggist á því að nema endurkast geislunarinnar frá yfirborði líkamans, ekki það sem fer í gegn eins og gert er við venjulega röntgenmyndun. Geislaálagið sem hlýst af notkun þessara skanna er mjög lítið. Að mati Health Protection Agency (HPA) í Bretlandi, felur ein skimun í slíkum skanna í sér mjög litla geislun, um 20 nanósívert (nSv) eða 0,00002 millisívert (mSv). Geimgeislun vex með hæð þannig að þegar við fljúgum fáum við á okkur meiri geimgeislun en á jörðu niðri. HPA miðar við að geimgeislun í tæplega 12 km hæð (35 þúsund fetum) sé um 0,005 mSv/klst. Þá svara þessi 20 nSv til um 15 sekúndna í flugi. Á Íslandi er náttúruleg geislun um 1 mSv á ári. Það þyrfti því 50 þúsund skimanir í þessum tækjabúnaði til að jafna árlega náttúrulega geislun hérlendis.

Þótt geislunin sé lítil frá þessum leitartækjum, þá hafa þau vakið miklar deilur. Það er einkum vegna þess að ýmsum finnst að myndgreiningartæknin sýni það nákvæma mynd af yfirborði líkama, að það sé nánast eins og verið sé að afklæða farþegann í myndvinnslunni og þetta brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins. Reynt hefur verið að koma til móts við þessi sjónarmið með því að setja strangar vinnureglur um notkun þeirra, til dæmis að tveir stjórni hverju tæki, annar eigi samskipti við farþegann sem er skimaður og sjái ekki myndina, hinn sé í lokuðum klefa og sjái ekki farþegann. Ekki eru þó allir sáttir við þetta og munu deilurnar eflaust halda áfram um sinn.

Vefsíða Health Protection Agency í Bretlandi um líkamsskanna á flugvöllum: http://www.hpa.org.uk/HPA/Topics/Radiation/UnderstandingRadiation/1262704915658/

S.E.P.